
„Ég er í fínu standi. Ég er búinn að spila mikið af leikjum og formið er nálægt því að verða eins gott og hægt er. Ég er mjög sáttur við að vera kominn á þennan stað," sagði Kolbeinn Sigþórsson við Fótbolta.net fyrir æfingu íslenska landsliðsins í dag.
Kolbeinn er kominn á fulla ferð með AIK í sumar eftir tveggja ára þrautagöngu vegna meiðsla. Hann hefur spilað ellefu leiki í sænsku úrvalsdeildinni og skorað tvö mörk.
„Maður er allt annar í dag. Ég er byrjaður að spila eftir að hafa verið nánast hættur í fótbolta. Þetta var ekki bjart á tímabili en tímarnir breyttust, sem betur fer," sagði Kolbeinn sem gekk í raðir AIK fyrr á árinu.
„Það var það besta sem gat gerst. Að komast í lið og spila mínútur. Þetta hefur farið allt eins og það á að fara í sumar og líkaminn hefur verið frábær. Ég vil halda þessu áfram."
Hinn 29 ára gamli Kolbeinn segist vilja fara aftur á stærra svið í framtíðinni.
„Ég er að njóta þess að spila núna og vera kominn í þetta stand sem ég er í núna. Auðvitað vil ég taka annað skref þegar ég er kominn í stand og byrjaður að skora á fullu."
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Athugasemdir