Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   lau 04. mars 2023 19:42
Ívan Guðjón Baldursson
Hlín skoraði til að tryggja toppsætið - Heiðdís gerði jafntefli
Mynd: Kristianstad
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það fóru þrír leikir fram í sænska kvennabikarnum í dag þar sem Hlín Eiríksdóttir var í byrjunarliði Kristianstad sem lagði Linköping að velli.


Hlín átti stóran þátt í sigrinum þar sem hún jafnaði fyrir Kristianstad eftir að Íslendingaliðið hafði lent undir. Hlín skoraði á 69. mínútu og gerði Evelyne Viens sigurmarkið skömmu fyrir lok venjulegs leiktíma.

Amanda Jacobsen Andradóttir kom inn af bekknum á 81. mínútu á meðan Delaney Baie Pridham, fyrrum framherji ÍBV, kom inn á 75. mínútu í liði heimakvenna í Linköping.

Guðrún Arnardóttir var þá ónotaður varamaður í stórsigri Rosengård gegn Alingsås. Kristianstad er svo gott sem búið að tryggja sér toppsæti riðilsins í bikarnum eftir sigra gegn Rosengård og Linköping. Lærlingum Elísabetar Gunnarsdóttur nægir jafntefli í lokaumferðinni gegn botnliði Alingsås til að tryggja sér toppsætið.

Að lokum steinlá Uppsala, sem Andrea Celeste Thorisson er á mála hjá, á heimavelli gegn Hammarby.

Linköping 1 - 2 Kristianstad
1-0 C. Tandberg ('16)
1-1 Hlín Eiríksdóttir ('69)
1-2 Evelyne Viens ('86)

Alingsås 0 - 4 Rosengård

Uppsala 0 - 4 Hammarby

Heiðdís Lillýardóttir lék þá allan leikinn í liði Basel sem gerði jafntefli á útivelli gegn Yverdon í svissnesku deildinni. Basel er þar um miðja deild með 17 stig eftir 12 umferðir.

Að lokum var Berglind Rós Ágústsdóttir ónotaður varamaður í svekkjandi tapi Huelva gegn Athletic Bilbao í efstu deild á Spáni. Huelva komst í tveggja marka forystu snemma leiks en gestirnir úr Baskalandi unnu að lokum 2-3. 

Huelva er með 17 stig eftir 20 umferðir, þremur stigum fyrir ofan fallsvæðið. Þetta var sjöunda tap liðsins í röð í öllum keppnum.

Yverdon 1 - 1 Basel

Huelva 2 - 3 Athletic Bilbao


Athugasemdir
banner
banner
banner