Slúðurpakki dagsins - Það helsta í slúðrinu: Barcelona vill halda Rashford - Chelsea leiðir baráttuna um Vinicius
banner
   þri 04. apríl 2017 15:30
Magnús Már Einarsson
Sara Björk: Kann mjög vel við nýja kerfið
Kvenaboltinn
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Sara Björk Gunnarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sara Björk Gunnarsdóttir verður í eldlínunni með íslenska landsliðinu í komandi vináttuleikjum gegn Slóvakíu og Hollandi. Íslenska liðið er mætt til Slóvakíu fyrir leikinn þar á fimmtudag.

„Slóvakía er með fínt lið og fína leikmenn. Þær leggja upp með skyndisóknir og við þurfum að vera vel vakandi. Þær eru stórar, sterkar og öflugar í föstum leikatriðum," sagði Sara við Fótbolta.net í dag.

„Það er flott að fá þessa leiki. Við viljum spila eins marga leiki og við getum fyrir EM til að stilla liðið saman. Holland hefur verið á flottu skriði í ár og það verður líka gaman að sjá hvar við stöndum á móti þeim."

Íslenska liðið prófaði að spila 3-4-3 á æfingamótinu á Algarve í síðasta mánuði og það verður eitthvað prófað áfram í komandi leikjum.

„Ég kann mjög vel við nýja kerfið. Við spiluðum það á móti Japan og Spáni á Algarve. Við lentum í smá ströggli á móti Japan en náðum að laga það. Við spiluðum mjög vel á móti Spáni og ég er mjög spennt fyrir kerfinu."

Svekkjandi gegn Lyon
Sara Björk og liðsfélagar hennar í Wolfsburg duttu út gegn Lyon í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Wolfsburg hafði betur 1-0 í síðari leiknum í Frakklandi en 2-0 tap á heimavelli eyðilagði möguleikann á að komast áfram.

„Þetta var gríðarlega svekkjandi. Við áttum aldrei að fá á okkur tvö mörk heima og við hefðum átt að skora þar. Við klúðruðum mörgum færum en boltinn fór ekki inn," sagði Sara.

„Þetta var svekkjandi eftir tvo góða leiki því mér fannst við vera betri í báðum leikjunum. Við fengum líka færi til að jafna í síðari leiknum en þetta féll ekki með okkur í þetta skipti. Það er svekkjandi að fá þennan leik svona snemma en ekki sem úrslitaleik en við tökum þetta á næsta ári."

Wolfsburg er á toppnum í Þýskalandi á fleiri skoruðum mörkum en Turbine Potstdam en bæði lið eru með 41 stig og 29 mörk í plús.

„Þetta er gríðarlega spennandi. Við erum líka í undanúrslitum í bikarnum og markmiðið er að klára tímabilið með trompi með því að vinna deildina og bikarinn. Þetta er mjög jafnt á toppnum. Við þurfum að halda áfram að vinna okkar leiki og vona að Potsdam misstígi sig eitthvað. Við eigum Potstdam líka eftir úti og þetta er mikil spenna. Maður vill hafa það þannig. Það er langskemmtilegast að vinna þá," sagði Sara.
Athugasemdir
banner
banner