Landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason meiddist á hné og þurfti að fara af velli er Norrköping tapaði fyrir Häcken, 2-0, í sænsku úrvalsdeildinni í dag.
Arnór Ingvi, sem er alger lykilmaður í Norrköping, meiddist eftir hálftímaleik og þurfti skiptingu en hann hélt sárþjáður um hné sitt eftir atvikið.
Það er vonandi að þetta sé ekkert slæmt og hann verði klár sem fyrst en þetta leit ekki vel út við fyrstu sýn.
Ísak Andri Sigurgeirsson spilaði allan leikinn í liði Norrköping sem er í 9. sæti deildarinnar með 9 stig.
Sævar Atli Magnússon lék allan leikinn með Lyngby sem gerði markalaust jafntefli við Viborg í fallriðli dönsku úrvalsdeildarinnar Mikilvægt stig hjá Lyngby sem er með 24 stig í 10. sæti, einu stigi fyrir ofan fallsæti.
Guðmundur Þórarinsson og hans menn í armenska liðinu Noah eru einum sigri frá því að vinna deildina eftir að liðið gerði 2-2 jafntefli við Van í 26. umferð deildarinnar í dag.
Selfyssingurinn lék allan leikinn í vinstri bakverðinum en Noah er með 68 stig, ellefu stigum meira en næsta lið þegar fjórir leikir eru eftir. Noah mætir Pyunik Yerevan í næstu umferð og getur liðið þar tryggt sér titilinn í fyrsta sinn í sögu félagsins.
Jón Dagur Þorsteinsson kom inn af bekknum undir lokin er Hertha Berlín vann Greuther Fürth, 1-0, í þýsku B-deildinni. Hertha er í 11. sæti með 43 stig.
Kristian Nökkvi Hlynsson lék allan leikinn með Spörtu Rotterdam og þá kom Nökkvi Þeyr Þórisson inn á sem varamaður er liðið tapaði fyrir Twente, 2-0, í hollensku úrvalsdeildinni. Sparta er í 11. sæti með 35 stig.
Elías Már Ómarsson var í byrjunarliði NAC Breda sem tapaði fyrir PEC Zwolle, 3-1. Breda er í 15. sæti með 32 stig, sjö stigum fyrir ofan fallsæti og stefnir allt í að liðið verði áfram í deild þeirra bestu en aðeins þrjár umferðir eru eftir af mótinu.
Athugasemdir