Nkunku búinn að taka ákvörðun - Richarlison gæti snúð aftur til Everton - Rodrygo til Liverpool?
   sun 04. maí 2025 14:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir 2. deild kvenna: Seinni hluti (6. - 1. sæti)
Kvenaboltinn
Síðustu ár hafa ekki verið góð fyrir Selfoss en þeim er spáð sigri í 2. deild í sumar.
Síðustu ár hafa ekki verið góð fyrir Selfoss en þeim er spáð sigri í 2. deild í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍR féll úr Lengjudeildinni síðasta sumar en er spáð sjötti sæti í 2. deild núna.
ÍR féll úr Lengjudeildinni síðasta sumar en er spáð sjötti sæti í 2. deild núna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvað gerir Einherji í sumar?
Hvað gerir Einherji í sumar?
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Amanda Lind Elmarsdóttir, lykilleikmaður í liði Einherja.
Amanda Lind Elmarsdóttir, lykilleikmaður í liði Einherja.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fjölni er spáð fjórða sætinu.
Fjölni er spáð fjórða sætinu.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Tinna Sól Þórsdóttir.
Tinna Sól Þórsdóttir.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
ÍH er með hörkulið.
ÍH er með hörkulið.
Mynd: Mummi Lú
Völsungur var ekki langt frá því að fara upp í fyrra.
Völsungur var ekki langt frá því að fara upp í fyrra.
Mynd: Völsungur
Alli Jói þjálfar bæði karla- og kvennalið Völsungs.
Alli Jói þjálfar bæði karla- og kvennalið Völsungs.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Selfoss féll úr Bestu deildinni 2023 og svo úr Lengjudeildinni í fyrra.
Selfoss féll úr Bestu deildinni 2023 og svo úr Lengjudeildinni í fyrra.
Mynd: Hrefna Morthens
Gunni Borgþórs tók við Selfossi í vetur.
Gunni Borgþórs tók við Selfossi í vetur.
Mynd: Selfoss
Í dag fer 2. deild kvenna af stað með tveimur leikjum. Smári tekur á móti Sindra og Fjölnir spilar við Selfoss í Egilshöll. Núna skoðum við hvaða liðum er spáð í efri hluta deildarinnar en við fengum alla þjálfarana til að spá fyrir um niðurstöðuna núna stuttu fyrir mót. Þjálfarar liðanna voru beðnir að raða liðunum niður 1-11 í spá og slepptu sínu liði. Við fórum yfir neðri hlutann um daginn og núna förum við yfir efri hlutann.

Það verður svipað fyrirkomulag í 2. deild og í fyrra. En núna mæta tólf lið til leiks, ekki 13 eins og í fyrra. Það er leikin einföld umferð og í seinni hluta mótsins er deildinni skipt upp í þrjá hluta; þá spila efstu fimm liðin sín á milli um tvö sæti í Lengjudeildinni.

6. ÍR (71 stig)
Lokastaða í fyrra: 10. sæti í Lengjudeildinni
ÍR-ingar eru komnir aftur í 2. deild eftir stutt stopp í Lengjudeildinni. Þær áttu ekki mikinn möguleika í næst efstu deild síðasta sumar en eftir að hafa unnið ÍBV óvænt í 2. umferð, þá töpuðu þær fjölda leikja í röð og voru langneðstar þegar mótið var hálfnað, með aðeins þrjú stig. Þær féllu að lokum með átta stig og eru núna komnar aftur í 2. deild. Þeim er ekki spáð beint aftur upp af þjálfurum en það hafa verið nokkrar breytingar hjá ÍR í vetur og þar á meðal eru komnir nýir þjálfarar. Egill Sigfússon og Kjartan Stefánsson stýra liðinu en þeir voru síðast með Augnablik í fyrra.

Lykilmenn: Suzanna Sofia Palma Rocha og Sandra Dögg Bjarnadóttir.

Gaman að fylgjast með: Birta Rún Össurardóttir (fædd árið 2004).

Þjálfarinn segir - Egill Sigfússon
„Spáin kemur mér ekki á óvart í ljósi þess að við erum að fara í gegnum ákveðna endurnýjun á leikmannahópnum sem hefur verið undanfarin ár. Úrslitin í Lengjubikarnum voru vissulega ekki hagstæð en það voru eins marks töp í leikjum sem við hefðum hæglega getað unnið. Við ætlum okkur hins vegar klárlega að vera í efstu 5 í deildinni svo það er okkar að afsanna þessa spá."

„Markmið okkar er að gera ÍR að liði sem mun festa sig í sessi í 1. deild á næstu árum, hvort sem við förum upp í sumar eða á næsta ári. Við erum búin að bæta við mörgum flottum ungum leikmönnum í bland við reynsluboltana sem voru hjá okkur fyrir og höfum fulla trú á að þessi hópur verði mjög öflugur saman. Við erum með stóran hóp af góðum leikmönnum sem æfa vel og við höfum fulla trú á að hópurinn muni reynast okkur vel í sumar."


5. Einherji (74 stig)
Lokastaða í fyrra: 5. sæti í 2. deild
Einherji frá Vopnafirði hefur tekist að stilla upp sterku liði í 2. deild kvenna í nokkur ár núna. Þær hafa endað í fimmta sæti deildarinnar í tvö ár í röð núna. Liðið hefur samanstaðið af heimakonum í bland við erlenda leikmenn og sú blanda hefur skilað þeim í efri hluta deildarinnar. Það gekk erfiðlega í vetur að finna þjálfara fyrir liðið en hann datt inn núna seint, kemur frá Ungverjalandi. Það er aðdáunarvert að það takist að halda úti fótboltaliði í eins litlu bæjarfélagi og Vopnafjörður er, en Einherja hefur tekist að gera það núna í nokkur ár og þeim hefur tekist að búa til flott fótboltalið sem getur gert góða hluti í sumar.

Lykilmenn: Borghildur Arnarsdóttir og Amanda Lind Elmarsdóttir.

Gaman að fylgjast með: Dagbjört Rós Hrafnsdóttir (fædd árið 2007)

Þjálfarinn segir - Csaba Szakál
Þetta verður erfið deild þar sem samkeppnin verður mikil. Við erum viss um að nokkur lið muni standa sig frábærlega og það munu örugglega koma lið á óvart. Eitt af því mikilvægasta verður að liðið sé fullkomlega ákveðið og að við getum komist áfram skref fyrir skref, sem mun að lokum skila árangri. Til meðallangs og skemmri tíma á þessi bær, fólkið sem býr hér sem elskar fótbolta, stjórnendur félagsins, aðrir starfsmenn og auðvitað leikmenn svo sannarlega skilið að komast upp um deild og við munum vinna að því á komandi tímabili. Við teljum að þetta sé algjörlega raunhæft markmið innan tveggja ára. Við höfum auðvitað sýn á þetta og það er líka öruggt að við munum vinna mjög hart og meðvitað til að ná þessu og auk þess mun rétta stemningin í kringum liðið vera lykilatriði. Margar breytingar hafa orðið. Starfsfólkið er nýtt og nýir leikmenn komnir. Við erum bjartsýn á þá og treystum því að nokkrir þeirra verði lykilmenn í framtíðarliðinu."

4. Fjölnir (89 stig)
Lokastaða í fyrra: 6. sæti í 2. deild
Fjölniskonum var spáð þriðja sæti fyrir tímabilið í fyrra en það gekk ekki alveg eftir plani. Liðið náði ekki þeim árangri sem vonast var eftir og Magnús Haukur Harðarson hætti sem þjálfari liðsins á miðju tímabili þar sem hann og félagið voru með ólíkar skoðanir um nútíð og framtíð liðsins. Fjölnir hafði verið í baráttu um að komast upp undir stjórn Magnúsar árið áður en var ekki með í þeim pakka í fyrra. Félag eins og Fjölnir á að vera með lið í næst efstu deild að minnsta kosti. Þetta er eitt stærsta hverfið í Reykjavíkurborg og félagið á að vera hærra sett.

Lykilmenn: Tinna Sól Þórsdóttir og Hrafnhildur Árnadóttir

Gaman að fylgjast með: Harpa Sól Sigurðardóttir (fædd árið 2004)

Þjálfarinn segir - Veselin Chilingirov
„Spáin kemur okkur ekki á óvart þar sem líklega eru flest liðin horfa á frammistöðuna í Lengjubikarnum. Spáin er góð leið til að sjá hvernig hin liðin eru að meta okkur og ekkert annað. Allir leikir ráðast á vellinum og við reynum okkar besta í hverjum leik."

„Markmið okkar fyrir tímabilið eru mjög einföld, við viljum bæta okkur frá því í fyrra og spila aðlaðandi fótbolta. Ég trúi því að við munum taka þátt í baráttunni um að fara upp, en markmið okkar er ekki að komast upp hvað sem það kostar; ef við ætlum að fara upp þá verður það eftir okkar leið og okkar gildum. Við trúum því staðfastlega að Fjölnir eigi að vera traust Lengjudeildarlið á næstunni og það er stefnan sem við erum að vinna að. Við erum með traustan kjarna leikmanna; ég er mjög ánægður með liðið og ég er bara spenntur að byrja tímabilið."


3. ÍH (95 stig)
Lokastaða í fyrra: 4. sæti í 2. deild
Lið ÍH hélt áfram að taka góð skref fram á við í fyrra. Eftir að hafa lent í sjötta sæti sumarið 2023 þá enduðu þær í fjórða sæti í fyrra. Í liðinu eru í raun nánast eingöngu ungar stelpur úr FH sem eru að fá dýrmæta og góða reynslu af því að spila í meistaraflokki. Í þessu ÍH liði eru margar efnilegar stelpur sem eiga möguleika á því að verða þekkt nöfn í fótboltanum í framtíðinni og er gaman að sjá þær taka sín fyrstu skref í þessu verkefni. Það eru nokkrar stelpur í FH-liðinu núna sem tóku sín fyrstu skref í meistaraflokki með ÍH. FH er að spila frábærlega í Bestu deild kvenna og ÍH er spáð afar góðu gengi þetta sumarið. Þær verða mögulega í baráttunni um að komast upp í Lengjudeildina.

Lykilmenn: Anna Heiða Óskarsdóttir og Aldís Tinna Traustadóttir

Gaman að fylgjast með: Hafrún Helgadóttir (fædd árið 2009)

Þjálfarinn segir - Brynjar Sigþórsson
„Flott spá við erum spennt fyrir komandi tímabili.

„ÍH liðið saman stendur af efnilegum stelpum úr 2 og 3. flokki og liðið mun halda áfram að spila skemmtilegan fótbolta."

„Markmiðin í ár verða áfram þau sömu og undanfarin tvö ár að gefa ungum og efnilegum leikmönnum tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í fullorðins bolta bæta sig og um leið öðlast dýrmæta reynslu. Í FH liðinu í dag eru sex leikmenn sem hafa farið í gegnum verkefnið á undanförnum tveimur árum ásamt fjölda leikmanna sem eru að spila með lengjudeildarliðum."


2. Völsungur (105 stig)
Lokastaða í fyrra: 3. sæti í 2. deild
Völsungur var í harðri baráttu um að komast upp úr deildinni í fyrra. Karlaliðið fór upp í Lengjudeildina og það munaði ekki miklu að kvennaliðið gerði það líka. Að lokum enduðu þær þremur stigum frá KR eftir skemmtilega deild. Fótboltinn á Húsavík virðist vera í miklum blóma og það er haldið vel utan um hlutina þarna. Völsungur hefur síðustu ár gert betur en spáin segir til og það er vonandi fyrir Húsavíkurfélagið að það haldi áfram því þá vinna þær deildina í sumar. Það er sterkur kjarni hjá Völsungi og hefur liðið litið vel út í vetur, en þær unnu meðal annars 0-7 sigur á Einherja núna á dögunum.

Lykilmenn: Halla Bríet Kristjánsdóttir og Rakel Hólmgeirsdóttir

Gaman að fylgjast með: Ísabella Anna Kjartansdóttir (fædd árið 2011)

Þjálfarinn segir - Aðalsteinn Jóhann Friðriksson
„Fyrst og fremst þá er spá alltaf bara spá og er aðalega merki um að það styttist í að deildin hefjist sem er auðvitað spennandi og skemmtilegt. Svo er það liða ýmist að keppast við að sanna eða afsanna spárnar."

„Okkur er spáð 2.sæti sem þýðir að aðrir hafi trú á okkur sem er bara gaman. Svo er það bara á okkur að mæta og gera eins vel og við getum til að þess að enda eins ofarlega og hægt er."

„Markmiðin eru alltaf að gera betur en síðast. Skora fleiri mörk, fá færri mörk á sig og þá vonandi um leið krækja í fleiri stig. Það skilar okkur þá vonandi hærra í töfluna og þá er spáin ekki svo galin."


1. Selfoss (120 stig)
Lokastaða í fyrra: 9. sæti í Lengjudeildinni
Síðustu tímabil hafa verið hræðileg fyrir Selfoss. Svo ekki sé meira sagt. Þær féllu úr Bestu deildinni eftir að hafa verið öflugt lið í þeirri deild í nokkur ár. Það er ekki svo langt síðan þær urðu bikarmeistarar með mjög gott lið. Svo féllu þær beint aftur niður um deild í fyrra á sínu fyrsta tímabili í Lengjudeildinni. Þær spiluðu ekki vel og áttu fall skilið. Núna er Selfoss komið aftur á núllpunkt og kannski er það bara gott. Því er spáð að þær verði langbesta liðið í 2. deild í sumar og það hlýtur að vera stefnan hjá Selfossi að rífa þetta lið aftur upp eftir erfið ár. Gunnar Borgþórsson tók við Selfossi í vetur og það er maður sem hefur áður náð árangri með þetta lið. Það þekkja líklega fáir fótboltann á Selfossi betur en hann og verður gaman að sjá hvernig þetta verkefni mun ganga hjá honum.

Lykilmenn: Guðmunda Brynja Óladóttir og Embla Dís Gunnarsdóttir

Gaman að fylgjast með: Védís Ösp Einarsdóttir (fædd árið 2008)

Þjálfarinn segir - Gunnar Borgþórsson
„Ég er ánægður með þessa spá og hún kemur mér ekki á óvart, ekki þannig. Okkar markmið er klárlega að fara upp. Við erum með mjög skemmtilegan hóp, blöndu af mjög ungum og efnilegum leikmönnum með eldri og reyndari leikmönnum. Hópurinn er lítill en mjög þéttur og hefur tekið mjög miklum framförum á stuttum tíma. Við erum að fá marga unga og efnilega leikmenn upp. Við erum með leikmenn úr 4. flokki, 3. flokki og 2. flokki sem spila nokkuð stór hlutverk með þessum hóp. Það verður spennandi að fylgjast með því. Hópurinn hefur vaxið mikið eftir mjög erfið síðustu tímabil. Við höfum náð að sparka okkur aðeins frá botninum og erum að reyna að klóra okkur hægt og rólega upp aftur."

Fyrstu leikirnir:
4. maí, Smári - Sindri (Fagrilundur - gervigras)
4. maí, Fjölnir - Selfoss (Egilshöll)
9. maí, Dalvík/Reynir - Völsungur (Dalvíkurvöllur)
10. maí, Selfoss - ÍR (JÁVERK völlurinn)
10. maí, KÞ - Sindri (Þróttheimar)
10. maí, ÍH - Einherji (Skessan)
11. maí, Sindri - Vestri (Fagrilundur - gervigras)
Athugasemdir
banner
banner