Nkunku búinn að taka ákvörðun - Richarlison gæti snúð aftur til Everton - Rodrygo til Liverpool?
   sun 04. maí 2025 17:12
Brynjar Ingi Erluson
Frábær byrjun Stefáns Inga - Fyrsta deildarmark Loga kom í tapi
Stefán Ingi er á eldi í Noregi
Stefán Ingi er á eldi í Noregi
Mynd: Sandefjord
Logi Tómasson skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu
Logi Tómasson skoraði fyrsta mark sitt á tímabilinu
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Blikinn Stefán Ingi Sigurðarson skoraði fjórða deildarmark sitt á tímabilinu er Sandefjord vann Tromsö, 1-0, í norsku úrvalsdeildinni í dag.

Stefán Ingi hefur verið hreint út sagt magnaður með Sandefjord í byrjun tímabilsins.

Hann lagði upp mark í fyrstu umferðinni og skoraði síðan tvö í næsta leik á eftir í 3-0 sigri á Molde.

Framherjinn gerði sér lítið fyrir og skoraði sigurmarkið á 62. mínútu gegn Tromsö sem var hans fjórða á tímabilinu og um leið að skora annan leikinn í röð.

Sandefjord er í 7. sæti deildarinnar með 9 stig og er það mikið til Stefáni að þakka.

Bakvörðurinn Logi Tómasson skoraði fyrsta deildarmark sitt á tímabilinu er Strömsgodset tapaði fyrir Kristiansund, 2-1, á heimavelli.

Mark Loga kom á 15. mínútu eftir fyrirgjöf Marko Farji en því miður dugði það ekki til í dag. Strömsgodset er í 9. sæti með 6 stig.

Sveinn Aron Guðjohnsen og Hilmir Rafn Mikaelsson spiluðu síðustu mínúturnar er Sarpsborg og Viking gerðu markalaust jafntefli. Sveinn Aron hefur verið að gera vel með Sarpsborg í undanförnum leikjum og sama á við um Hilmi hjá Viking.

Viking er í 2. sæti með 14 stig en Sarpsborg í 8. sæti með 8 stig.

Kolbeinn Þórðarson kom inn af bekknum hjá Gautaborg sem tapaði fyrir Mjällby, 1-0, í sænsku úrvalsdeildinni.

Gautaborg er án sigurs í síðustu tveimur deildarleikjum en liðið er í 8. sæti með 10 stig þegar sjö umferðir hafa verið leiknar.

Birkir Bjarnason spilaði síðustu tuttugu mínúturnar er Brescia gerði markalaust jafntefli við Juve Stabia í ítölsku B-deildinni. Brescia er í 16. sæti með 39 stig.

Staðan er þannig að ef Brescia endar í 16. eða 17. sæti mun það þurfa að fara í sérstakt fall umspil, en aðeins tveir leikir eru eftir af deildinni og á liðið enn möguleika á koma sér ofar á töfluna.

Bakvörðurinn Davíð Kristján Ólafsson lék síðari hálfleikinn í 2-0 tapi Cracovia gegn Lechia Gdansk. Cracovia er í 6. sæti með 45 stig og enn í baráttu um Evrópusæti.
Athugasemdir
banner