„Mér líður bara vel. Auðvitað eins og allir vita þá og við best sjálfir þá höfum við ekki byrjað mótið eins vel og við hefðum viljað en ég vill nú líka meina það að við höfum verið gríðarlega óheppnir í leikjum en í dag þá voru grunngildin til staðar og menn voru að vinna sig inn réttinn til að spila fótbolta." sagði Heimir Guðjónsson þjálfari FH eftir fyrsta sigur liðsins í Bestu deildinni en FH vann Val 3-0 sannfærandi í Kaplakrika í kvöld.
Lestu um leikinn: FH 3 - 0 Valur
„Við tókum völdin strax en auðvitað duttum við aðeins til baka en við héldum samt alltaf áfram og spiluðum fínan fótbolta á köflum en á móti kemur er þetta bara einn leikur, fyrsti sigurinn og síðan verðum við bara að ná okkur niður á jörðina á morgun og vera klárir í góða æfingaviku."
„Það sem hjálpaði líka þessum leik er að æfingavikan var frábær, allar æfingarnar í vikunni voru mjög góðar og ef þú ætlar að gera eitthvað í fótbolta þá er það þannig að það byrjar alltaf á æfingasvæðinu."
„Þetta getur gefið okkur ýmislegt ef við látum það gera það og við þurfum að setjast niður líka og átta okkur á því afhverju við unnum þennan leik og greina það og vera svo klárir og fá aðra góða æfingaviku."
FH hélt loksins hreinu í kvöld og svaraði Heimir því léttur „Það gerist nú ekki á hverjum degi."