
Keppni í 2. deild kvenna hefst á sunnudaginn með leik Smára og Sindra í Fagralundi. Við fengum alla þjálfarana í deildinni til að skila inn spá núna stuttu fyrir mót. Þjálfarar liðanna voru beðnir að raða liðunum niður 1-11 í spá og slepptu sínu liði. Við byrjum á að fara yfir liðin sem enduðu í neðri hlutanum í þessari spá.
Það verður svipað fyrirkomulag í 2. deild og í fyrra. En núna mæta tólf lið til leiks, ekki 13 eins og í fyrra. Það er leikin einföld umferð og í seinni hluta mótsins er deildinni skipt upp í þrjá hluta; þá spila efstu fimm liðin sín á milli um tvö sæti í Lengjudeildinni.
Það verður svipað fyrirkomulag í 2. deild og í fyrra. En núna mæta tólf lið til leiks, ekki 13 eins og í fyrra. Það er leikin einföld umferð og í seinni hluta mótsins er deildinni skipt upp í þrjá hluta; þá spila efstu fimm liðin sín á milli um tvö sæti í Lengjudeildinni.
7. Álftanes (59 stig)
Lokastaða í fyrra 11. sæti í 2. deild
Álftanes átti ekki frábært sumar í fyrra þar sem þeim var spáð þessu sæti, sjöunda sætinu, fyrir mót en enduðu að lokum í ellefta sæti. Álftanes er með gríðarlega ungt lið en þarna fá aðallega ungar stelpur úr Stjörnunni tækifæri til að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokksfótbolta. Samstarfið þarna á milli hefur verið gott en sameiginlegt lið Stjörnunnar og Álftaness fór með sigur af hólmi í Reykjavíkurmótinu í vetur. Meðalaldurinn verður ekki hár þarna í sumar en elsti leikmaður liðsins í Lengjubikarnum var fædd árið 2006. En þó meðalaldurinn sé ekki hár, þá horfir liðið eflaust á það að gera betur en í fyrra.
Lykilmenn: Ásthildur Lilja Atladóttir og Nanna Lilja Guðfinnsdóttir
Gaman að fylgjast með: Erika Ýr Björnsdóttir (fædd árið 2009)
Þjálfarinn segir - Arnar Páll Garðarsson
„Þetta er eflaust bara eðlileg spá og ekkert við henni að segja og í raun ekkert sem við erum að spá í. Við vorum í C-úrslitum í fyrra og úrslitalega séð var þetta ekki gott. En ólíkt kannski flestum liðum í þessari deild þá erum við með þetta lið til að búa til öðruvísi umhverfi og áskoranir fyrir okkar efnilegustu leikmenn og til að brúa bilið frá 2-3 flokk í meistaraflokk Stjörnunnar. Úrslit eru ekki okkar markmið heldur framþróun leikmanna. Þannig okkar markmið eru að leikmenn fái að þroskast og bæta sig í fótbolta."
8. KÞ (52 stig)
Lokastaða í fyrra Voru ekki með
KÞ er að koma inn sem nýtt lið í deildina en þarna má segja að um svipað verkefni sé að ræða og hjá Álftanesi. Þarna eru ungir leikmenn úr Laugardalnum að fá mikilvægt tækifæri í meistaraflokki, og helsta markmið félagsins er að þróa leikmenn áfram. Þó eru úrslitin auðvitað líka mikilvæg og skemmtilegt að vinna leiki. Það er auðvitað fagnaðarefni að fá ný lið inn í flóruna en þjálfarar deildarinnar hafa trú á því að stelpurnar ungu úr Laugardalnum munu gera flotta hluti í sumar og þær verði í baráttu um að enda um miðja deild.
Lykilmenn: Hafdís Hafsteinsdóttir og Hildur Laila Hákonardóttir
Gaman að fylgjast með: Camilly Kristal Silva Da Rocha (fædd árið 2008)
Þjálfarinn segir - Sigurður Sigurðsson
„Að vera spáð áttunda sæti af tólf mögulegum er alls ekki slæmt fyrir nýtt lið með enga reynslu í þessari deild. Hin liðin þekkja okkur lítið. Þetta setur rétt magn af pressu á okkur. Reyna að enda hærra en okkur er spáð og sanna að við eigum heima í þessari deild."
„Helstu markmiðin okkar í sumar er að fara í alla leiki til þess að keppa þá og gefa öllum liðum leik á sama tíma og að hjálpa þeim ungu leikmönnum sem við erum með að vaxa og þróa sinn leik."
9. Dalvík/Reynir (50 stig)
Lokastaða í fyrra 12. sæti í 2. deild
Dalvíkingar komu ferskar inn síðasta sumar og gerðu að mörgu leyti flotta hluti. Þær unnu fjóra leiki af 18 og enduði í tólfta sæti af 13 liðum. Það er alls ekki auðvelt að vera með lið á landsbyggðinni en Dalvíkingar mættu af krafti í flestalla leiki og stóðu sig vel. Það hefur verið uppgangur í fótboltanum á Dalvík undanfarin misseri og eru aðstæður til fyrirmyndar. Það ætti að vera tækifæri fyrir Dalvík/Reyni að búa skemmtilegt verkefni fyrir leikmenn af svæðinu á næstu árum og koma sér hærra í töflunni eftir því sem líður á. Dalvíkingar mæta með nýjan þjálfari og þá kannski aðeins öðruvísi áherslur en í fyrra.
Lykilmenn: Rósa Dís Stefánsdóttir og Hafrún Mist Guðmundsdóttir
Gaman að fylgjast með: Karen Hulda Hrafnsdóttir (fædd árið 2009)
Þjálfarinn segir - Friðjón Árni Sigurvinsson
„Það er eðlilegt að okkur sé spáð níunda sæti verandi á öðru ári með kvennalið og miðað við gengi liðsins síðasta sumar. Við erum óskrifað blað eftir miklar breytingar á leikmannahópnum. Liðið hefur breyst mikið frá síðasta sumri og er góð blanda af reynslumiklum leikmönnum ásamt ungum efnilegum stelpum. Við fórum í samstarf við Þór/KA og það er gaman að sjá þessar ungu stelpur þaðan ásamt okkar taka sín fyrstu skref í meistaraflokki. Markmiðin okkar fyrir sumarið er að gera mun betur en síðasta sumar og reyna festa Dalvík/Reyni í sessi til framtíðar í kvennaboltanum. Það er mikil stemning á Dalvík fyrir liðinu og við ætlum okkur að nýta þann meðbyr og sýna að við eigum heima ofar en níunda sæti."
10. Vestri (32 stig)
Lokastaða í fyrra 10. sæti í 2. deild
Eins og Dalvík, þá mætti Vestri til leiks með kvennalið í fyrsta skipti. Karlaliðið komst upp í Bestu deildina og þá var stofnað kvennalið sem var flott. Vestri mætti til leiks sem óskrifað blað í fyrra eftir að hafa hvorki tekið þátt í Lengjubikarnum né Mjólkurbikarnum, en þær gerðu bara nokkuð vel á sínu fyrsta tímabili og enduðu í tíunda sæti deildarinnar. Þær tóku ekki þátt í Lengjubikarnum heldur núna en spiluðu við ÍR í Mjólkurbikarnum á dögunum og töpuðu þar 3-0. Það er mikið af ungum stelpum í liðinu en líka nokkrar reynslumeiri sem hjálpa til. Eins og Dalvík, þá fór Vestri í þjálfarabreytingu í vetur en
Brentton Muhammad var einnig hluti af teyminu í fyrra og þekkir því liðið vel. Vestri horfir væntanlega í það að gera betur en í fyrra og komast hærra en þessi spá segir til um.
Lykilmenn: Chloe Hennigan og Sigríður Króknes Torfadóttir
Gaman að fylgjast með: Agla Vigdís Atladóttir (fædd árið 2007)
Þjálfarinn segir - Brentton Muhammad
„Ég held að það séu mörg lið í deildinni sem hafa bætt sig og ég held að spá sé bara spá. Markmið okkar fyrir sumarið að gefa allt í þeta og í lok tímabilsins munum við sjá hvort við höfum gert það."
11. Sindri (29 stig)
Lokastaða í fyrra 8. sæti í 2. deild
Sindrakonur voru eitt af spútnikiðum síðasta sumars þar sem þeim var spáð tólfta sæti en þær voru ekki í neðsta hluta deildarinnar þegar henni var skipt. Þær voru í níunda sæti með ellefu stig þegar deildinni var skipt og enduðu svo að lokum í áttunda sæti fyrir ofan Augnablik. Sindrakonur voru afar sterkar á heimavelli sínum og komu þar fimm af sex sigurleikjum liðsins. Sindri hefur frá 2019 leikið í 2. deild kvenna og endaði liðið hæst í þriðja sæti. Það gekk ekki vel í Lengjubikarnum í vetur en þar fengu íslensku stelpurnar í liðinu góða reynslu. Þær léku svo hörkuleik við Einherja í Mjólkurbikarnum en hann endaði með 4-2 sigri Vopnfirðinga.
Lykilmenn: Fanney Rut Guðmundsdóttir og Carly Wetzel
Gaman að fylgjast með: Emilía Alís Karlsdóttir (fædd árið 2008)
Þjálfarinn segir - Jóhann Bergur Kiesel
„Ég skal alveg vera hreinskilinn að þessi spá kemur mér ekkert svakalega á óvart. Lengjubikarinn var þungur róður fyrir okkur en mjög gagnlegur. Hópurinn í vetur var lítill og ungur, þannig Lengjubikarinn var gríðarlega góð reynsla fyrir stelpurnar sem mun nýtast þeim í sumar."
„Markmiðin eru í svipuðum dúr og í fyrra. Gera betur en síðast. Ásamt því að halda áfram að bæta okkar sem leikmenn og einstaklingar og búa þannig til öflugra lið."
12. Smári (16 stig)
Lokastaða í fyrra 13. sæti í 2. deild
Annað árið í röð er Smára spáð neðsta sæti deildarinnar. Síðustu tvö sumur hafa verið afar erfið fyrir liðið úrslitalega séð og þær endað neðstar bæði tímabilin. Það er kannski fátt sem bendir til þess að það muni breytast í sumar. Nokkuð stór hluti hópsins ólst upp í Breiðabliki, og eru þá líka búnar að stíga upp úr Augnabliki sem var meira fyrir yngri leikmenn. Liðið hefur fengið ágætis pósta í vetur og ber þar hæst líklega Sigrún Gunndís Harðardóttir sem er gríðarlega reynslumikill leikmaður. Hún getur vel spilað á hærra stigi og er mikill leiðtogi sem ætti mögulega að geta hjálpað Smára að taka skref fram á við í sumar.
Lykilmenn: Sigrún Gunndís Harðardóttir og Auður Erla Gunnarsdóttir
Gaman að fylgjast með: Magnea Dís Guðmundsdóttir (fædd árið 2005)
Þjálfarinn segir - Sigurbjartur Sigurjónsson
„Spáin er í sjálfu sér mjög eðlileg miðað við gengi síðasta árs."
„Við förum seint af stað í ár, þ.e.a.s nýtt þjálfarateymi kemur inn rétt fyrir fyrsta leik í Lengjubikar. Frammistaðan í Lengjubikarnum var hinsvegar fín ef við miðum við að við höfðum æft lítið og fyrstu leikirnir voru bara beint í mót."
„Það hefur gengið ágætlega að styrkja liðið í vetur og fyrsta markmið er alltaf að gera betur en á síðasta ári þegar liðið var með tvö stig eftir deildarkeppnina."
„Ég held að liðið muni vaxa inn í mótið, seinni hlutinn verði okkur góður þegar við höfum náð að slípa okkur almennilega saman, kannski styrkja okkur um 2-3 leikmenn í viðbót og komnar í betra form þá gætum við komið einhverjum á óvart með óvæntum úrslitum!"
„Þetta verður áhugaverð deild þar sem ég sé fram á nokkurskonar tvískiptingu, þeas fimm lið nokkuð afgerandi í toppbaráttu og svo mun neðri helmingurinn vera reita stig af hvort öðru."
„Hvet alla til þess að fylgjast með 2.deild kvenna í ár, hún mun verða fjörug, mikið af mörkum og mikil stemning í deildinni sem vonandi mun vekja áhuga og meiri umfjöllun en síðustu ár."
„Lifi Smári, lifi stemningin!"
Athugasemdir