fim 04. ágúst 2022 07:40
Ívan Guðjón Baldursson
Jensen: Kraftaverk nægir ekki, við þurfum Guð sjálfan
Jensen vonar vafalítið að heilagur andi setjist að í líkama Elíasar Rafns fyrir seinni leikinn. Hann fékk 22 skot á sig í Portúgal, 11 þeirra hæfðu rammann.
Jensen vonar vafalítið að heilagur andi setjist að í líkama Elíasar Rafns fyrir seinni leikinn. Hann fékk 22 skot á sig í Portúgal, 11 þeirra hæfðu rammann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Henrik Jensen, þjálfari Midtjylland, gaf kostulegt svar í viðtali eftir 4-1 tap gegn Benfica í fyrri leik liðanna í forkeppni Meistaradeildarinnar í gær.


Elías Rafn Ólafsson varði mark Mið-Jótlendinga í leiknum en þeir áttu aldrei möguleika gegn sterkum Portúgölum. En er möguleiki fyrir Midtjylland í seinni leiknum í Danmörku?

„Við mættum topp andstæðingum og við vissum að þetta yrði erfitt. Við áttum virkilega góðar 20 mínútur í upphafi leiks en svo áttum við ekki möguleika. Við þurfum að vaxa og læra af þessum leik því við spiluðum gegn leikmönnum í hæsta gæðaflokki," sagði Jensen að leikslokum.

„Kraftaverk nægir okkur ekki lengur til að komast áfram, við þurfum hjálp frá Guði sjálfum og ég trúi ekki einu sinni á Guð. Þetta verður því ótrúlega erfitt og allt sem við viljum gera er að sýna góða frammistöðu, alveg sama hver úrslitin verða, það er það eina sem skiptir máli. Við munum spila okkar leik og sjá til hvað gerist.

„Við eigum leik í deildinni á föstudag og svo er þessi leikur gegn Benfica á þriðjudegi. Það gerir þetta ennþá erfiðara."

Jensen var að lokum spurður út í hversu miklar líkur hann teldi sína menn eiga á að komast áfram í næstu umferð.

„Ég veit það ekki, ég er ekki stærðfræðingur, þetta er einhver mjög lág prósenta. Ég veit ekki hvort þetta séu fimm, tvö, tíu eða tuttugu prósent möguleikar sem við eigum. Mér er alveg sama. Eina sem skiptir máli er að spila góðan fótbolta á þriðjudaginn."


Athugasemdir
banner
banner