
Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, var ekki sáttur við Jules Kounde, varnarmann liðsins, í leiknum gegn Póllandi í 16-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í dag en hann spilaði stærstan hluta fyrri hálfleiks með gullkeðju um hálsinn.
Kounde var í byrjunarliði Frakka og skartaði þessari glæsilegu gullkeðju um hálsinn en reglur FIFA eru strangar þegar það kemur að fylgihlutum.
Frakkinn spilaði með gullkeðjuna stærstan hluta fyrri hálfleiks áður en aðstoðardómarinn lét franska liðið vita að hann mætti ekki spila með keðjuna.
Deschamps skilur ekkert í Kounde enda ætti hann að vera meðvitaður um reglurnar.
„Ég sagði meira að segja við hann að hann væri heppinn að vera ekki fyrir framan mig annars..“ sagði Deschamps á fréttamannafundi eftir leikinn.
„Dómarinn minnti okkur á að leikmenn mættu ekki vera með armband eða hálsmen. Þeir eru ekkert að fara að byrja að spila með úr eða sólgleraugu heldur. Þetta er bannað og ég hélt að Kounde væri að taka af sér hálsmenið en það var greinilega ekki þannig. Þetta skrifast á okkur,“ sagði Deschamps.
Athugasemdir