Man Utd endaði í 2. og 3. sæti ensku úrvalsdeildarinnar á þeim tveimur heilu tímabilum sem Solskjær stýrði liðinu.
Fabrizio Romano er meðal fréttamanna sem greina frá því að Ole Gunnar Solskjær sé spenntur fyrir því að taka við stjórnartaumunum hjá Manchester United sem bráðabirgðaþjálfari út tímabilið.
Solskjær þekkir mjög vel til innan félagsins eftir að hafa verið leikmaður liðsins frá 1996 til 2007 og þjálfari þess í rétt tæplega þrjú ár frá 2018 til 2021.
Romano segir að Solskjær sé meira en tilbúinn til að snúa aftur á hliðarlínuna til að hjálpa félaginu sem á stóran stað í hjarta hans. Það er þó óljóst hvað stjórnendur Man Utd vilja gera.
Ýmsir stjórar hafa verið orðaðir við starfið hjá Rauðu djöflunum og er Oliver Glasner þar á meðal, en samningur hans við Crystal Palace rennur út eftir tímabilið.
Solskjær myndi taka við af Ruben Amorim sem var rekinn úr starfi í dag. Amorim fær áfram greidd laun frá Man Utd þar til hann finnur sér nýtt félag, en samningur hans við félagið rennur ekki út fyrr en eftir eitt og hálft ár.
Athugasemdir


