Wharton til Real Madrid - Chelsea vill Vini - Sunderland horfir til Barcelona - Sterling að losna úr prísundinni?
   mán 05. janúar 2026 11:26
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Vildu ekki skipta um stjóra en höfðu engra annarra kosta völ
Greinin er unnin upp úr umfjöllun Rob Dorsett hjá Sky Sports
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Rob Dorsett hjá Sky Sports fjallar um brottrekstur Ruben Amorim. Hann segir að ráðamenn United hafi ekki viljað skipta aftur um stjóra en á endanum hafi þeir álitið að þeir ættu engra annarra kosta völ.

United vildi ná stöðugleika í félaginu með ráðningu á Amorim og tilfinningin var sú að það hafi tekist í upphafi. En hann neitaði að aðlagast og þróa leikkerfi sitt sem leiddi til þess að ráðamenn misstu trúna á stjóranum.

Amorim fundaði með Jason Wilcox, yfirmanni fótboltamála hjá United, á föstudag og þar var rætt um taktík. Eftir fundinn tjáði Amorim sig og sagði að það væri alltof dýrt að spila leikkerfið sem hann vildi.
Samkvæmt heimildum Sky Sports þá fannst ráðamönnum Amorim hafa sýnt neikvæð og of tilfinningarík viðbrögð við þeim fundi.

Dorsett segir að brottreksturinn hafi ekki verið út af því að Amorim vildi spila leikkerfið 3-4-3, heldur hafi hann verið byggður á því að stjórinn hafi neitað að aðlaga leikstílinn við mismunandi aðstæður og það hafi aftrað þróun liðsins.

Hann segir einnig að brottreksturinn hafi ekki verið út af mismunandi skoðunum um janúargluggann, þó að Amorim hafi viljað styrkja liðið strax í janúar en ráðamenn voru á bremsunni með það. Amorim er sagður hafa viljað fá framherja með reynslu úr úrvalsdeildinni inn í hópinn strax í janúar.

Planið var að styrkja miðsvæðið næsta sumar og Amorim fékk alls um 250 milljónir punda til að styrkja liðið í stjóratíð sinni. Reynt var að fá Antoine Semenyo en það átti ekki að ganga svo langt í þeirri tilraun að það myndi breyta plönunum í næsta glugga.

Ráðamenn hafa enn trú á því að United nái Evrópusæti og út af neikvæðni þjálfarans, sérstaklega tilfinningaríkum yfirlýsingum í fjölmiðlum, þá fannst þeim staða hans óviðráðanleg. Ráðamenn hafa trú á leikmannahópnum en þeim fannst þjálfarinn ekki hafa sömu trú. Á endanum fannst þeim Amorim ekki hafa náð þeim stöðugleika hjá félaginu og hann var sóttur til að ná.

Eftir slæm úrslit, hitafund með Wilcox og neikvæð ummæli í fjölmiðlum þá var ekki annað hægt að gera en að breyta til. United vildi ekki skipta aftur um stjóra en ráðamenn höfðu engra annarra kosta völ.
Athugasemdir
banner