Guimaraes, Isak, Kimmich, Diaz, Branthwaite, Mainoo og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   fös 05. mars 2021 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
U21: Hverja velur Davíð? - Þessa valdi ég í hópinn
20 dagar í mót
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Davíð Snorri Jónasson
Davíð Snorri Jónasson
Mynd: Hulda Margrét
Verður Ísak Bergmann í hópnum hjá A-liðinu eða U21?
Verður Ísak Bergmann í hópnum hjá A-liðinu eða U21?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökull hefur leikið vel með Exeter
Jökull hefur leikið vel með Exeter
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sveinn Aron var markahæstur Íslendinga í undankeppninni.
Sveinn Aron var markahæstur Íslendinga í undankeppninni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Willum Þór sneri til baka eftir meiðsli í vikunni.
Willum Þór sneri til baka eftir meiðsli í vikunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Fannar er að glíma við meiðsli sem stendur
Andri Fannar er að glíma við meiðsli sem stendur
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Valgeir Lunddal var efnilegasti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar í fyrra.
Valgeir Lunddal var efnilegasti leikmaður Pepsi Max-deildarinnar í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar og Eiður þjálfa nú A-landsliðið.
Arnar og Eiður þjálfa nú A-landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í hvorum hópnum verður Mikael? Verður hann í hvorugum hópnum eins og í nóvember?
Í hvorum hópnum verður Mikael? Verður hann í hvorugum hópnum eins og í nóvember?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það styttist í að tilkynntur verði 23ja manna leikmannahópur fyrir lokakeppni U21 árs landsliða. Það má einnig kalla þetta milliriðla, því þetta er nákvæmlega það. Íslenska liðið þarf að enda í öðru af tveimur efstu sætum síns riðils til að fara í 8-liða úrslit sem fara fram í maí.

Ísland komst í þennan milliriðil með því að enda í 2. sæti í undankeppninni eftir mikla baráttu við Svíþjóð og Írland, það var ítalska liðið sem endaði í efsta sæti. Andstæðingar okkar í milliriðlinum eru Rússar, Danir og Frakkar. Gjaldgengir á mótið eru leikmenn fæddir 1998 og síðar.

Ég setti saman lista, 32ja manna lista, af þeim leikmönnum sem ég tel að séu efstir á blaði hjá Davíð Snorra Jónassyni, þjálfara liðsins. Þjálfaraskipti urðu eftir að árangurinn náðist, Arnar Þór Viðarsson og Eiður Smári Guðjohnsen tóku við A-landsliðinu og Davíð Snorri kom inn í þeirra stað.

Það skal einnig tekið fram að ef forföll koma upp í A-landsliðinu, eða ef útséð er að U21 liðið kemst ekki áfram, þá geta leikmenn verið kallaðir upp í A-landsliðið. Það er þó ekki hægt að kalla leikmenn inn í U21 hópinn á meðan mótinu stendur.

Ég ætla að reyna rökstyðja af hverju þessir 23 leikmenn verða valdir en ekki þeir níu sem einnig verður minnst á. Það er mögulega ekki svo einfalt að Davíð geti valið þá 23 bestu sem eru gjaldgengir í þennan hóp. A-landsliðið á þrjá mikilvæga leiki í undankeppninni fyrir HM í Katar á næsta ári og þeir leiknir á rúmri viku. Ég tel að fjórir leikmenn sem gjaldgengir eru í þennan lokahóp verði valdir í A-landsliðið.

Hópinn, eins og ég sé hann, má sjá hér að neðan. Það er að sjálfsögðu gefið að allir séu og verði heilir heilsu.

Hópurinn:
Markverðir:
Patrik Sigurður Gunnarsson (Silkeborg, að láni frá Brenford)
Elías Rafn Ólafsson (Fredericia, að láni frá Midtjylland)
Jökull Andrésson (Exeter, að láni frá Reading)

Varnarmenn:
Hörður Ingi Gunnarsson (FH)
Róbert Orri Þorkelsson (Breiðablik)
Ísak Óli Ólafsson (SönderjyskE)
Kolbeinn Birgir Finnsson (Dortmund, spilar með Dortmund II)
*Valgeir Lunddal Friðriksson (Häcken)
Finnur Tómas Pálmason (Norrköping)
Axel Óskar Andrésson (Riga FC)

Miðjumenn:
Kolbeinn Þórðarson (Lommel)
Stefán Teitur Þórðarson (Silkeborg)
Andri Fannar Baldursson (Bologna)
Alex Þór Hauksson (Östers)
Daníel Hafsteinsson (KA)
Þórir Jóhann Helgason (FH)
Ísak Bergmann Jóhannesson (Norrköping)

Sóknarmenn:
Willum Þór Willumsson (BATE)
Valdimar Þór Ingimundarson (Strömsgodset)
Sveinn Aron Guðjohnsen (OB, að láni frá Spezia)
Brynjólfur Andersen Willumsson (Breiðablik)
Mikael Neville Anderson (FC Midtjylland)
*Valgeir Valgeirsson (Brentford B, að láni frá HK)

Hér eru talin upp 23 nöfn. Átján þeirra eru feitletruð og eru það þau nöfn sem ég tel að lítill sem enginn vafi sé á að verði í hópnum. Eftir standa fimm nöfn. Einhverjir kannski stoppuðu við og sáu hvorki fyrirliða né varafyrirliða liðins. Þá Jón Dag Þorsteinsson (AGF) og Alfons Sampsted (Bodö/Glimt). Ég tel að þeir verði valdir í A-landsliðshópinn. Arnar Þór og Eiður Smári þekkja þessa tvo virkilega vel og ég held að þeim verði treyst fyrir hlutverki með A-liðinu. Í því verður líklegast einnig Arnór Sigurðsson (CSKA Moskva) sem hefur verið hluti af því liði í nokkur ár. Ef ég ætti að giska hver myndi bera fyrirliðaband Íslands, þá kemur nafn Alex Þórs, fyrrum fyrirliða Stjörnunnar, strax upp í hugann.

Þá er komið að tveimur nöfnum sem ekki voru feitletruð. Nöfn þeirra Ísaks Bergmanns og Mikaels Neville. Ísak Bergmann verður að öllum líkindum hluti af A-landsliðinu næsta eina og hálfa áratuginn en ég tel að hann muni spila með U21 liðinu í þessum glugga. Staða Mikaels er óljós, ummæli Arnars Þórs í nóvember renna stoðum undir að einhver kergja sé milli hans og Mikaels og því eru líkur á að Mikael leiki sína síðustu U21 landsleiki þetta vorið. Mikael er að mínu mati fjær því að fá mínútur með A-landsliðinu heldur en þeir Arnór og Jón Dagur.

Eftir standa þrjú nöfn, þeir Jökull, Valgeir Valgeirs og Axel Óskar voru ekki feitletraðir. Þeir komu síðastir á blað hjá mér. Við skulum kannski fá þau sex nöfn sem ekki hafa verið nefnd.

*Ef Alfons og Jón Dagur verða í U21 hópnum tel ég að það færi Valgeirana, Lunddal og Valgeirsson, aftar í goggunarröðina og mögulega úr hópnum. Varðandi Alfons þá skiptir auðvitað máli hvernig Arnar og Eiður horfa á Guðlaug Victor Pálsson, er hann hægri bakvörður? Er Birkir Már Sævarsson áfram í myndinni?

Þeir sem eru næstir inn:
Hákon Rafn Valdimarsson (Grótta)
Ari Leifsson (Strömsgodset)
Ágúst Eðvald Hlynsson (Horsens)
Guðmundur Andri Tryggvason (Start)
Jónatan Ingi Jónsson (FH)
Hákon Arnar Haraldsson (FC Kaupmannahöfn)

(Aðrir sem komust á blað: Bjarki Steinn Bjarkason (Venezia), Kristófer Ingi Kristinsson (Jong PSV, að láni frá Grenoble), Torfi Tímoteus Gunnarsson (Fylkir), Birkir Valur Jónsson (HK), Hjalti Sigurðsson (KR), Dagur Dan Þórhallsson (Mjöndalen), Davíð Ingvarsson (Breiðablik) og Stefán Árni Geirsson (KR))

Af hverju vel ég Jökul fram yfir Hákon Rafn? Jökull hefur ekki verið í U21 hópnum til þessa en í vetur hefur hann verið á láni í League Two, ensku D-deildinni og leikið fantavel. Ég tel að Jökull standi Hákoni framar á þessum tímapunkti en einhver hausverkur gæti myndast að ná fullkomnu samþykki frá Exeter, þar sem ekki er venjan að lið í D-deildinni séu með menn í landsliðsverkefnum. Mögulega verður sú ákvörðun tekin að Jökull verði ekki valinn þar sem hann sé númer þrjú í röðinni í landsliðinu. Hákon átti ekkert stjörnutímabil með Gróttu í fyrra, á sinni fyrstu leiktíð í efstu deild.

Þá kemur í raun mesti hausverkurinn, valið stóð á milli Axels Óskars og Ara Leifssonar í vörninni. Ari gekk í raðir Stromsgodset í fyrra frá Fylki og hefur mikið þurft að verma varamannabekkinn. Axel spilaði mikið fyrir Viking og stóð sig tölfræðilega mjög vel. Hann skipti svo yfir til lettneska félagsins Riga á dögunum. Axel missti út allt árið 2019 vegna meiðsla og kom ekki inn í hópinn aftur hjá U21 fyrr en síðasta haust. Ég fór svo langt að horfa í hvort menn væru réttfættir eða örvfættir. Finnur Tómas og Ísak Óli eru réttfættir á meðan Róbert Orri er örvfættur. Ari er réttfættur en Axel er örvfættur. Ég valdi Axel Óskar út frá spiluðum mínútum síðasta sumar og því hlutverki sem hann var með í liðinu fyrir meiðslin erfiðu.

Af hverju Valgeir frekar en Ágúst eða Guðmundur Andri? Valgeir átti betra tímabil en Ágúst Eðvald þegar kemur að aðkomu að mörkum, Ágúst hefur ekki alveg náð að stimpla sig inn í liðið hjá Horsens en á sama tíma hefur Valgeir staðið sig vel í leikjum með Brentford. Valgeir getur einnig verið til vara í hægri bakverði sem er kostur. Andri hefur þá glímt við meiðsli og lítið verið um undirbúningsleiki í Noregi sem hægt er að rýna í.

Ef upp kemur sú staða að þeir Jón Dagur, Mikael Neville og Arnór verða valdir í A-liðið þá tel ég að Ágúst Eðvald komi inn í hópinn. Ég byggi það á því að Guðmundur Andri var fjarri góðu gamni alla síðustu leiktíð og hefur ekki spilað alvöru fótboltaleik í lengri tíma. Andri lék hlutverk í síðustu undankeppni en Ágúst var nálægt liðinu og hefur verið að koma við sögu í efstu deild í Danmörku. Ég horfi svo á Jónatan Inga sem kost á eftir Ágústi og Guðmundi Andra.

Hákon Arnar er svo á blaði ef Davíð Snorri vill vera með fleiri valmöguleika upp á topp.

Staðan á hópnum:
Markverðir:
Patrik varði mark liðsins í öllum leikjum nema einum í síðustu undankeppni og hefur leikið virkilega vel í Danmörku í vetur. Elías Rafn glímdi við höfuðmeiðsl í febrúar en sneri til baka um síðustu helgi. Patrik virkar sem augljós kostur í byrjunarliðið á þessum tímapunkti.

Vörnin:
Finnur Tómas sneri til baka um liðna helgi, hann hafði glímt við meiðsli eftir komuna til Svíþjóðar. Ísak Óli er ekki inn í myndinni hjá SönderjyskE og spilar lítið, hann hefur verið orðaður við félög í öðrum löndum. Kolbeinn Birgir leikur með varaliði Dortmund og erfitt að fylgjast með því hvernig honum gengur, varaliðinu gengur vel en það leikur í svæðisskiptri fjórðu efstu deild. Valgeir Lunddal meiddist þá á dögunum en ætti að verða orðinn klár fljótlega, jafnvel um helgina. Allir varnarmennirnir okkar, nema Kolbeinn, eru á undirbúningstímabilinu með sínum liðum (sænska bikarkeppnin er í gangi, en deildin ekki byrjuð).

Miðjumenn:
Kolbeinn Þórðar spilar flestallar mínútur í belgísku B-deildinni, Andri Fannar hefur fengið fáar mínútur með aðalliði Bologna og meiddist á dögunum, hann ætti að vera klár eftir rúma viku. Á meðan er Stefán Teitur búinn að vinna sig inn í byrjunarliðið í Danmörku. Alex Þór, Daníel og Þórir Jóhann hafa verið að leika undirbúningsleiki líkt og Ísak Bergmann. Ísak hefur glímt við veikindi og Þórir hefur verið eitthvað fjarverandi þegar skýrslur FH eru skoðaðar.

Sóknarmenn:
Það er kannski alveg heilagt hverjir eru skráðir miðjumenn, kantmenn/sóknarmenn í liðinu en ég miða við listann hér að ofan. Willum sneri til baka eftir meiðsli í vikunni og þeir Brynjólfur og Valdimar eru á undirbúnignstímabili. Sveinn Aron er úti í kuldanum í Danmörku og spilar ekkert með aðalliðinu, hefur nýlega varla verið í hóp á leikdegi. Mikael Neville er inn og út úr hóp hjá Midtjylland eftir að hafa átt góða tvo mánuði undir lok síðasta árs þar sem hann fékk margar mínútur. Þá er Valgeir að spila æfingaleiki með varaliði Brentford.

Æfingahópurinn sem Davíð Snorri valdi í febrúar æfði í þessari viku og samkvæmt þeim upplýsingum sem Fótbolti.net hefur æfðu allir með liðinu og gátu allir beitt sér að fullu. Fimm úr þeim æfingahópi eru í hópnum sem hér er valinn. Torfi Tímoteus glímir við meiðsli og kom því ekki til greina í æfingahópinn.

Sjá einnig:
Willum: Hvort vill leikmaður spila á lokamóti eða sitja upp í stúku?
Æfingahópur hjá U21 - 26 leikmenn valdir
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner