Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   sun 05. mars 2023 23:33
Brynjar Ingi Erluson
Sigríður Lára leggur skóna á hilluna
Sigríður Lára Garðarsdóttir
Sigríður Lára Garðarsdóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sigríður Lára Garðarsdóttir hefur tekið þá ákvörðun að leggja skóna á hilluna. Þetta tilkynnir hún á Facebook-síðu sinni í kvöld.

Sigríður Lára, sem er 28 ára gömul, er uppalin í ÍBV og spilaði sinn fyrsta deildarleik með liðinu aðeins 15 ára gömul.

Síðan þá hefur hún spilað 167 leiki í efstu deild með ÍBV, Val og FH og skorað 24 mörk.

Árið 2021 varð hún Íslandsmeistari með Val og komst í undanúrslit bikarsins sama ár. Einnig varð hún bikarmeistari með ÍBV árið 2017 eftir 3-2 sigur á Stjörnunni.

Á síðasta tímabili hjálpaði hún FH að komast aftur upp í efstu deild þar sem hún lék 18 leiki og gerði eitt mark, en hefur ákveðið að kalla þetta gott eftir ráðleggingar frá lækni.

„Ég hef tekið þà erfiðu ákvörðun að leggja knattspyrnuskóna á hilluna. Eftir ráðleggingar frá lækni finn ég að það er kominn tími til að hlusta á líkamann og setja heilsuna í fyrsta sæti,“ sagði Sísí á Facebook-síðu sinni.

„Fótboltinn hefur verið mér allt frá því ég var lítil og hefur hann gefið mér svo margt. Ég hef kynnst frábærum liðsfélögum, þjálfurum og starfsfólki sem hafa hjálpað mér í að verða betri knattspyrnukona og manneskja.

„Þetta fólk á allar mínar þakkir fyrir að nenna mér. Ég lít stolt til baka yfir ferilinn minn og hlakka til að taka brosandi á móti því sem koma skal. Takk fyrir mig,“
bætti hún við.

Hún lék 20 A-landsleiki á ferli sínum og var meðal annars í hópnum sem fór á Evrópumótið í Hollandi fyrir sex árum.
Athugasemdir
banner
banner
banner