Arsenal reiðubúið að spreða í framherja - Real Madrid ætlar að leggja fram annað tilboð í Trent - Cambiaso til Man City?
   mið 05. apríl 2023 08:20
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Keflavík kaupir Stefan Ljubicic (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KR hefur selt Stefan Ljubicic til Keflavíkur, Stefan mun því spila með Keflvíkingum í sumar.

Hann er 23 ára framherji sem gekk í raðir KR fyrir síðasta tímabil eftir eitt ár hjá HK. Á síðasta tímabili skoraði hann fjögur mörk í alls 26 leikjum með KR.

Stefan var samningsbundinn KR út tímabilið 2025 og því þurfti Keflavík að kaupa hann. Hann þekkir vel til í Keflavík en hann lék þar upp yngri flokkana og lék sína fyrstu leiki í meistaraflokki sumarið 2015.

Í kjölfarið hélt hann til Brighton á Englandi, sneri heim og lék með Grindavík seinni hluta tímabilsins 2019 og fór svo til Riga í Lettlandi. Hann stoppaði stutt í Lettlandi og gekk í raðir HK í sumarglugganum 2020. Þar lék hann í eitt og hálft ár áður en hann samdi við KR.

Í 69 deildar- og bikarleikjum á Íslandi hefur Stefan skorað fjórtán mörk. Hann er sonur Zoran Daníels Ljubicic sem lék með HK, ÍBV, Grindavík, Keflavík, Völsungi og Njarðvík á sínum ferli hér á Íslandi.

Keflavík verður án sóknarmannsins Jordan Smylie, Ástralans sem kom til félagsins í vetur, en hann glímir við meiðsli. Stefan eykur í breiddina fram á við hjá Keflavík sem var ekki mikil eftir meiðsli Smylie.
Athugasemdir
banner
banner
banner