Man City setur verðmiða á Cancelo - Simons eftirsóttur - Lille hafnar Liverpool
   sun 05. maí 2024 17:36
Brynjar Ingi Erluson
England: Liverpool skoraði fjögur gegn Tottenham
Mohamed Salah skoraði og lagði upp
Mohamed Salah skoraði og lagði upp
Mynd: EPA
Harvey Elliott skoraði geggjað mark og lagði upp eitt fyrir Gakpo
Harvey Elliott skoraði geggjað mark og lagði upp eitt fyrir Gakpo
Mynd: EPA
Vonir Tottenham um að komast í Meistaradeild Evrópu eru litlar sem engar
Vonir Tottenham um að komast í Meistaradeild Evrópu eru litlar sem engar
Mynd: Getty Images
Liverpool 4 - 2 Tottenham
1-0 Mohamed Salah ('16 )
2-0 Andrew Robertson ('45 )
3-0 Cody Gakpo ('50 )
4-0 Harvey Elliott ('59 )
4-1 Richarlison ('72 )
4-2 Son Heung-Min ('77 )

Liverpool vann Tottenham Hotspur, 4-2, í skemmtilegum leik á Anfield í 36. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag. Tottenham tókst ekki að nýta sér tap Aston Villa í dag og er Meistaradeildardraumurinn að dvína.

Heimamenn mættu ferskir til leiks eftir erfiðar vikur. Mohamed Salah kom aftur inn í byrjunarliðið eftir að hafa byrjað á bekknum gegn West Ham í síðustu umferð, sem var jú eftirminnilegt fyrir þær sakir að hann lenti upp á kant við Jürgen Klopp á hliðarlínunni, en Salah var glaður í dag.

Hann skoraði á 16. mínútu. Cody Gakpo kom með glæsilega fyrirgjöf frá vinstri, sem flaug á fjærstöngina og þar var Salah mættur að stanga boltann í nærhornið. Salah að skora 18. deildarmark sitt á tímabilinu.

Tottenham var mjög ósannfærandi aftast og fékk Liverpool tækifæri til að skora fleiri en annað markið kom ekki fyrr en undir lok hálfleiksins. Salah fékk boltann í teignum, skaut á Guglielmo Vicario sem varði boltann til hliðar og var Robertson fyrstur til að bregðast við og kom boltanum í netið. Hann að skora annan leikinn í röð.

Staðan 2-0 í hálfleik og það átti eftir að versna fyrir gestina því Gakpo gerði þriðja markið snemma í þeim síðari.

Harvey Elliott kom með frábæra fyrirgjöf inn í teiginn á Gakpo sem reis hæst og stangaði boltann í vinstra hornið. Elliott skoraði svo sjálfur níu mínútum síðar með stórglæsilegu marki fyrir utan teig upp í samskeytin vinstra megin. Geggjað mark hjá Englendingnum.

Tottenham tókst aðeins að bíta frá sér síðustu tuttugu mínúturnar. Varamaðurinn Richarlison skoraði eftir sendingu Brennan Johnson á 72. mínútu og þá minnkaði Heung-Min Son muninn fimm mínútum síðar eftir sendingu Richarlison, en Suður-Kóreumaðurinn setti boltann þægilega fram hjá Alisson í markinu.

Salah gat endanlega gert út um leikinn stuttu síðar en klúðraði á einhvern ótrúlegan hátt nokkrum metrum frá markinu.

Mark var tekið af Salah undir lok leiks eftir sendingu Darwin Nunez en markið dæmt af vegna rangstöðu. Lokatölur 4-2 fyrir Liverpool, sem er með 78 stig í 3. sæti en Tottenham er áfram í 5. sæti með 60 stig, sjö stigum frá Aston Villa.
Athugasemdir
banner
banner