mán 05. júlí 2021 21:46
Fótbolti.net
Ísak Bergmann pirraður út í Helga Mikael - „Til hamingju núna fáið þið athygli"
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Helgi Mikael Jónasson tók þá ákvörðun að dæma vítaspyrnu í uppbótartíma í leik Víkings og ÍA sem fram fór í Víkinni í kvöld.

Sú ákvörðun var allt annað en vinsæl hjá gestunum sem mótmæltu dómnum. Nikolaj Hansen fór niður í teignum og dæmdi Helgi Mikael ekki strax og virtist ekki ætla dæma en ákvað svo að benda á vítapunktinn. Staðan var markalaus á þessu augnabliki en Nikolaj Hansen skoraði úr vítinu og tryggði heimamönnum sigurinn.

„HELGI MIKAEL DÆMIR VÍTASPYRNU Á SKAGAMENN!!! Nikolaj dettur í teignum og brot dæmt! SKAGAMENN BRJÁLAÐIR!!! skrifaði Alexander Freyr Tamimi í textalýsingu frá leiknum.

Það voru ekki bara Skagamenn inn á vellinum sem voru ósáttir við þennan dóm.

Skagamaðurinn Ísak Bergmann Jóhannesson, leikmaður Norrköping og sonur Jóhannesar Karls Guðjónssonar, þjálfara ÍA, tjáði sig um Helga Mikael á Instagram eftir leik.

„Trúðalestin enn og aftur. Hvenær á þessi gæi að hætta að dæma í efstu deild," spyr Ísak og á þar við dómara leiksins. Ísak heldur áfram með annarri færslu.

„Hann elskar athyglina. Það eru ekki allir mættir að horfa á þig Helgi Mikael."

„Þið eruð flottir. Rosa flottir. Til hamingju núna fáið þið athygli. Það sem þið vilduð,"
skrifaði Ísak.
Athugasemdir
banner
banner
banner