Liverpool býður Trent væna launahækkun - PSG og Villa gætu skipst á leikmönnum - Zirkzee vill fara frá Man Utd
   lau 06. apríl 2019 21:26
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Castillion reynir að losa sig - Segir Víking skulda sér pening
Castillion í leik með FH.
Castillion í leik með FH.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Hann segist ekki vilja spila fyrir Víking.
Hann segist ekki vilja spila fyrir Víking.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sóknarmaðurinn Geoffrey Castillion er þessa stundina í Hollandi og æfir þar hjá einkaþjálfara. Krafta hans er ekki óskað hjá FH og eru viðræður í gangi um riftun á samningi hans við Fimleikafélagið.

Castillion var fenginn til FH frá Víkingi R. fyrir síðasta tímabil, en hann náði sér aldrei á strik í FH-treyjunni og var lánaður aftur til Víkings seinni hluta síðasta sumars.

Þar fann hann sig og skoraði sex mörk í átta leikjum.

Castillion er samningsbundinn FH, en hann hefur ekki verið að æfa með liðinu. Á dögunum ræddi Ólafur Kristjánsson, þjálfari FH, við Fótbolta.net, um stöðu mála hjá framherjanum.

„Hann er samningsbundinn FH en hann er ekki að æfa með okkur. Það er óljóst hvort hann verði með okkur í sumar," sagði Ólafur.

Fréttamaður heyrði í Castillion vegna málsins. Hann segir að viðræður séu í gangi við FH.

„Við erum í viðræðum núna um að rifta samningnum," sagði hollenski framherjinn. „Ég er í Hollandi og er að bíða eftir fréttum frá Íslandi. Vonandi get ég fundið mér nýtt félag í júlí."

„Ég fór frá FH í nokkra daga í janúar. Svo sagði þjálfarinn við mig að ég gæti farið því að ég væri ekki í plönum hans fyrir tímabilið. Það væri betra fyrir mig að leita að öðru félagi."

„Þeir fóru í æfingaferð í Bandaríkjunum á meðan fór ég heim. Síðan spurði ég hvort ég mætti koma aftur og vera með liðinu. Þeir vildu ekki fá mig aftur."

„Víkingur skulda mér pening"
Castillion verður ekki áfram í FH og það er því vert að spyrja hann um Víking þar sem hann virðist kunna vel við sig. Hann spilar yfirleitt vel í Víkingstreyjunni.

Hann er þó ekki á leið í Víking fyrir Pepsi Max-deildina í sumar þar sem hann segist eiga inni pening hjá Víkingum.

„Nei, það er ekki möguleiki lengur. Þeir skulda mér pening, þeir eiga eftir að greiða mér laun fyrir tvo mánuði. Ég hef reynt að ræða við þá, en þeir hunsa mig bara."

„Mér ekki sýnd virðing hjá Víkingi og þess vegna vil ég ekki lengur spila fyrir þá."

„Það er ólíklegt að ég spili á Íslandi í sumar. Vonandi get ég rift samningi mínum og fundið nýtt félag," sagði Castillion að lokum.
Athugasemdir
banner