Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   þri 06. apríl 2021 23:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Trent að skalla eins og einhver í sjötta flokki"
Mynd: Getty Images
Eins og fram hefur komið þá átti bakvörðurinn Trent Alexander-Arnold erfitt uppdráttar í Meistaradeildinni í kvöld.

Hann spilaði í hægri bakverði fyrir Liverpool í 3-1 tapi gegn Real Madrid og fann ekki alveg taktinn.

Hann gerði slæm mistök í öðru marki Real Madrid þegar hann skallaði boltann fyrir fætur Marcos Asensio. Markið má sjá hérna.

Rætt var um frammistöðu Alexander-Arnold í Meistaradeildarmörkunum á Stöð 2 Sport 2 eftir leikinn.

„Trent er að skalla þarna eins og einhver leikmaður í sjötta flokki. Hann lokar augunum og þorir ekki að fá hann almennilega í sig. Þetta er rosalega skrýtið," sagði Atli Viðar Björnsson, fyrrum sóknarmaður FH.

„Hann gefur þetta mark. Ég held að við höfum talið fjórar, fimm sendingar í fyrri hálfleik, einfaldar sendingar sem klikka og gera það að verkum að Real Madrid getur sótt hratt á þá. Gareth Southgate (landsliðsþjálfari Englands) hefur örugglega horft á þennan leik og brosað út í annað," sagði Davíð Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfari FH.

„Það var mikil umræða eftir að hann var ekki valinn í enska landsliðið og Trent var góður um síðustu helgi á móti Arsenal. Það var talað um að hann væri 'man on a mission' að koma sér í hópinn fyrir EM. Hann var svo sannarlega ekki að gera sjálfum sér neina greiða með þessari frammistöðu í kvöld," sagði Atli Viðar.

Alexander-Arnold, sem er aðeins 22 ára, er með það orðspor á sér að vera frábær sóknarlega en ekki nægilega sterkur þegar kemur að varnarleiknum.
Athugasemdir
banner
banner
banner