Newcastle vill Kean - Arsenal og Liverpool hafa áhuga á Eze - Modric gæti farið til Katar
   sun 06. apríl 2025 10:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Hafði aldrei heyrt um íslenskan fótbolta en er nú við það að skrifa söguna
Patrick hefur skorað 116 mörk í 189 leikjum í efstu deild.
Patrick hefur skorað 116 mörk í 189 leikjum í efstu deild.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Skoraði 17 mörk í Bestu deildinni í fyrra og varð þriðji markahæsti leikmaður síðasta tímabils.
Skoraði 17 mörk í Bestu deildinni í fyrra og varð þriðji markahæsti leikmaður síðasta tímabils.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Var frábær á undirbúningstímablinu.
Var frábær á undirbúningstímablinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
'Ég fer inn í öll tímabil með það hugarfar að ég ætli mér að verða markahæstur í deildinni.'
'Ég fer inn í öll tímabil með það hugarfar að ég ætli mér að verða markahæstur í deildinni.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
'Ég myndi segja að þetta sé nánast eins og mitt annað heimili.'
'Ég myndi segja að þetta sé nánast eins og mitt annað heimili.'
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Vann sinn fyrsta gullskó 2015.
Vann sinn fyrsta gullskó 2015.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Kiddi Freyr hefur lagt upp ófá mörkin á Patrick.
Kiddi Freyr hefur lagt upp ófá mörkin á Patrick.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingi Björn Albertsson.
Ingi Björn Albertsson.
Mynd: Úr einkasafni
TG9 er sá markahæsti í sögu efstu deildar.
TG9 er sá markahæsti í sögu efstu deildar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Patrick og Kiddi saman árið 2014.
Patrick og Kiddi saman árið 2014.
Mynd: Ingólfur Hannes Leósson
„Þetta var í raun ekki erfið ákvörðun, mig langaði ekki að skrifa undir hjá öðru félagi hér á Íslandi. Ég er ánægður hjá Val og Valur er mitt félag á Íslandi, þetta var því ekki erfið ákvörðun. Ég er til í að vera hér áfram, allavega í nokkur ár í viðbót," segir Patrick Pedersen við Fótbolta.net, en hann framlengdi samning sinn við Hlíðarendafélagið fyrir ekki svo löngu síðan.

Fyrri samningur hefði runnið út eftir tímabilið 2025 en hann framlengdi samning sinn um ár.

„Ég var ekki búinn að heyra af áhuga hjá öðrum íslenskum félögum og ég talaði ekki við önnur félög. Þetta var bara Valur."

„Ég er með fjölskyldu hér, við ræddum hvort þetta yrði mitt síðasta tímabil hér á Íslandi, það var annað hvort að vera áfram hjá Val eða fara aftur til Danmerkur. Við ræddum þetta innan fjölskyldunnar, dóttir mín er í skóla, sonur minn er í leikskóla og eiginkona mín er ánægð hér. Við vorum sammála um að vera áfram nokkur ár í viðbót."

„Danmörk og Ísland eru nokkuð svipuð lönd, það er kannski aðeins dýrara hér á Íslandi, en þetta er nokkuð svipað. Fólkið hér er mjög vinalegt. Í Danmörku er ég með alla fjölskylduna á meðan við eiginkonan og börnin erum hér og ég sakna fjölskyldunnar minnar talsvert."

„Kosturinn við Ísland er sá að hér get ég spilað Evrópufótbolta og barist um titla. Ég er nokkuð viss um að ef ég færi til Danmerkur núna þá myndi ég ekki finna lið í efstu deild Danmerkur, svo það væri B-deildin. Það að spila í efstu deild er miklu betra en að spila í næstefstu deild."

„Ég heyrði aðeins af áhuga frá Danmörku, en ekki mikið, ekkert konkrít myndi ég segja. Ef ég hefði ekki sagt neitt við Val og haldið möguleikunum opnum lengur, þá hefði kannski eitthvað tilboð komið í maí eða júní frá Danmörku."

„En það var enginn vafi í mínum huga að ég ætti að framlengja samning minn við Val."


Var enginn hluti af þér sem sagði þér að bíða, sjá hvaða möguleikar kæmu upp, mögulega myndi samningstilboð Vals hækka ef það væru fleiri félög að reyna?

„Ég er ekki viss. Valur kom nokkuð snemma til mín og við ræddum málin í u.þ.b. mánuð áður en við náðum saman. Við urðum sammála með skilmálana og ég skrifaði undir. Þetta var ekki erfið ákvörðun."

Bónus ef 2025 verður árið sem hann slær met Tryggva
Eins og Patrick segir þá er markmið Vals alltaf að berjast á toppnum. Hann sjálfur er nálægt toppnum með 116 mörkum, einungis 16 mörkum frá því að skáka Tryggva Guðmundssyni (131) sem er markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar.

Á milli þeirra er Ingi Björn Albertsson sem skoraði 126 mörk í efstu deild á sínum ferli. Ingi Björn er goðsögn hjá Val en hann prófaði líka fyrir sér hjá FH og Patrick er því markahæsti leikmaður í sögu Vals, náði þeim áfanga síðasta sumar. Hann er einnig markahæsti erlendi leikmaður í sögu efstu deildar.

Er markmiðið á þessu tímabili að verða markahæsti leikmaður í sögu efstu deildar á Íslandi?

„Klárlega. Ég vonast alltaf til þess að skora og hjálpa liðinu. Ef ég enda sem sá markahæsti í sögunni á þessu tímabili, þá er það bara bónus. Það mikilvægasta er að berjast um titlana, svo vona ég að ég geti hjálpað með einhverjum mörkum og við sjáum til hversu mörg ég næ þetta árið."

Ætlaði að nota Ísland sem stökkpall aftur til Danmerkur
Spólum aðeins til baka, til ársins 2013. Hvernig kom það til að Daninn kom til Íslands, hvernig horfir hann til baka og hvers vegna kom hann alltaf aftur í Val?

„Þegar ég kom fyrst árið 2013 þá kom ég á láni frá danska félaginu mínu (Vendsyssel). Umboðsmaðurinn kom til mín og sagði mér að það væri möguleiki fyrir mig að fara til Íslands. Fyrsta sem ég hugsaði var að ég hefði aldrei heyrt um íslenskan fótbolta. En ég var spenntur, kom hingað til að spila. Ég hugsaði að ég myndi bara spila tíu leiki hérna, fara svo aftur til Danmerkur og fengi þá tækifæri til að spila þar."

Valur og Ísland eins og annað heimili
En þannig þróaðist þetta ekki, Patrick skoraði fimm mörk í fyrstu níu leikjum sínum með Val og sneri aftur fyrir tímabilið 2014.

„Ég stóð mig vel í fyrstu leikjunum og Valsarar vildu kaupa mig, ég sagði „af hverju ekki? Látum reyna á þetta" og kom aftur. Ég meiddist snemma á tímabilinu og kom til baka þegar mótið var tæplega hálfnað. Ég kom öflugri aftur til baka fyrir tímabilið 2015, varð markahæstur og var þá seldur til Viking í Noregi. Ég var þar í eitt og hálft ár."

„Ég fékk ekki tækifærið hjá Viking, Valsarar höfðu samband og spurðu mig hvort ég vildi koma aftur, það var ekki erfið ákvörðun á þeim tíma, hugsaði að ég gæti komið aftur og yrði svo aftur seldur. Ég spilaði seinni hluta tímabilsins 2017 með Val, urðum meistarar og tímabilið 2018 varð ég aftur markahæstur, við unnum deildina og spiluðum í Evrópu. Ég stóð mig vel og var seldur aftur."

„Ég var seldur til Sheriff Tiraspol, það var öðruvísi upplifun. Allt önnur menning og annað hugarfar. Þetta var erfitt. Félagið skipti um þjálfara á tíma mínum þar og nýi þjálfarinn var alls ekki hrifinn af mér, ég var ekki alls ekki hrifinn af honum, og hann vissi það. Valur hafði aftur samband og ég sneri aftur og hef verið hér síðan."

„Mér líður vel hér, augljóslega."


Lítur þú á Val og Ísland sem alvöru heimili þitt í dag?

„Næstum því, börnin mín eru alin upp hérna og ég hef búið hér lengi. Ég myndi segja að þetta sé nánast eins og mitt annað heimili."

Ef og hefði: Átti að mæta í betra formi til Noregs
Patrick á kannski ekki mörg ár eftir, en hann hefur verið lengi á toppnum hér á Íslandi og raðað inn mörkum þegar hann spilar. Horfir hann eitthvað til baka og hugsar: hvað ef? Ef hann hefði gert eitthvað öðruvísi, hefði hann getað farið lengra með sinn feril?

„Þegar ég kom til Viking í Stafangri þá var ég ekki í mínu besta formi þegar tímabilið byrjaði, ég fann það um leið. Áður en ég kom til móts við hópinn fyrir undirbúningstímabilið var ég búinn að vera í þriggja mánaða fríi eftir tímabilið á Íslandi; október, nóvember og desember. Þó að undirbúningstímabilið í Noregi sé nokkuð langt, þá fannst mér ég vera skrefinu á eftir þeim. Ég hugsa að ef ég hefði átt betra undirbúningstímabil, gert mjög vel hjá Viking og mögulega seldur þaðan í annað félag... maður veit ekki og það er erfitt að segja."

Elskar að spila með Kidda Frey
Af hverju hentar íslenski fótboltinn þínum leikstíl svo vel?

„Það er góð spurning. Til að byrja með, þegar ég kom hingað fyrst, þá fannst mér íslenskur bolti vera mjög mikið fram og til baka allan tímann, enginn strúktúr. En mér finnst alltaf góðum leikmönnum vera að fjölga og þjálfararnir eru að verða betri. Tilfinningin er að það sé meiri strúktúr í leikjum, ekki of mikið fram og til baka."

„Það er erfitt að segja hvernig þetta hentar mér svona vel. Ég hef spilað með sömu leikmönnum í langan tíma núna og þeir vita í hverju ég er góður. En það er erfitt að segja af hverju þetta hentar mér svo vel."


Það sem þú ert í raun að segja er að það sé mjög gott að spila með Kidda Frey fyrir aftan þig?

„Já, ég elska að spila með Kidda, klárlega," sagði Patrick og hló. „Við þekkjum hvorn annan mjög vel og það er klárlega gott að hafa hann í liðinu."

Sjálfstraustið mikilvægt og gott undirbúningstímabil hjálpar
Patrick hefur átt gott undirbúningstímabil; raðaði inn mörkum í Lengjubikarnum. Skiptir það hann máli?

„Klárlega. Það er svo mikilvægt fyrir framherja að ná góðu undirbúningstímabili, ná að skora mörk í æfingaleikjum, komast á skrið þar og vita þegar tímabilið byrjar að þú getur haldið áfram að skora þar. Sjálfstraustið er ótrúlega mikilvægt. Það hjálpar mér klárlega mikið að skora á undirbúningstímabilinu."

„Líður allavega ekki eins og ég sé verri"
Patrick er 33 ára og verður 34 ára í nóvember. Hvernig horfir það við þér, ertu enn á toppi ferilsins eða finnst þér þú vera á leiðinni niður fjallið?

„Mér líður allavega ekki eins og ég sé verri leikmaður, orðum það þannig. Maður finnur það samt þegar þú eldist, það fer ekki á milli mála. En mér líður eins og ég sé í góðu formi. Ég finn að ég er aðeins þreyttari eftir leiki en þegar ég var 25 ára, en mér líður vel og er spenntur fyrir því að tímabilið sé að byrja. Það er mikið af leikjum í apríl og þetta verður skemmtilegt."

Ætlar sér að verða markakóngur
Patrick segir að þetta tímabil sé ekki frábrugðið öðrum, hann ætlar sér að verða markakóngur.

„Ég fer inn í öll tímabil með það hugarfar að ég ætli mér að verða markahæstur í deildinni. Það er engin breyting á því núna. Ég reyni að gera mitt besta fyrir liðið, og það er að skora mörk. Það er vinnan mín og markmið mitt."

Meiri varnarvinna undir Túfa
Lokaspurningin, fyrir bónusspurninguna, var út í breytinguna á leikstíl Vals eftir að Srdjan Tufegdzic tók við í fyrra. Hvernig hefur hlutverk Danans breyst?

„Mér finnst hlutverkið mitt ekki mjög breytt, ég þarf kannski aðeins að vinna meira varnarlega en áður," sagði Patrick léttur. „Túfa vill að menn leggi hart að sér."

Strítt af liðsfélögunum
Viðtalið var tekið á ensku þar sem dönskukunnátta undirritaðs er ekki til útflutnings og viðfangsefnið ekki smørrebrød. Þó að Patrick hafi verið hér á landi í um áratug, þá datt undirrituðum ekki einu sinni í hug að reyna við íslenskuna hjá Dananum, sem var kannski ókurteisi. Hann var spurður hvernig íslenskan hans væri.

„Ég myndi segja að ég skilji svona 95% af íslensku, en að tala hana, það er miklu erfiðara fyrir mig, allir liðsfélagarnir mínir stríða mér af því ég kann ekki að tala málið," sagði sá danski laufléttur að lokum.

Hann verður að öllum líkindum fremstur í liði Vals þegar liðið tekur á móti Vestra í 1. umferð Bestu deildarinnar í dag, en sá leikur hefst klukkan 14:00 í dag.
Athugasemdir
banner
banner