Valdimar Þór Ingimundarson kemur sterklega til greina sem besti leikmaður Bestu deildarinnar en hann hefur átt mjög gott tímabil. Hann var mest skapandi leikmaður Víkings framan af og hefur bætt við sig mörkum síðustu mánuði mótsins. Hann skoraði fyrra markið í sigrinum á FH í gær en sá sigur tryggði Víkingi Íslandsmeistaratitilinn 2025.
Valdimar vildi fara frá Víkingi í sumarglugganum og hafnaði Víkingur tilraunum Vals til að fá hann yfir. Fótbolti.net ræddi við Kára Árnason, yfirmann fótboltamála, um Valdimar í dag.
Valdimar vildi fara frá Víkingi í sumarglugganum og hafnaði Víkingur tilraunum Vals til að fá hann yfir. Fótbolti.net ræddi við Kára Árnason, yfirmann fótboltamála, um Valdimar í dag.
Var þetta flókið samtal sem þú áttir við hann í sumar, voru menn alltaf 100% sáttir með stöðuna?
„Nei, þetta kom mér svolítið á óvart, ég verð að viðurkenna það. Þetta er algjörlega komið í baksýnisspegilinn núna, þetta var lærdómsferli fyrir alla sem komu að því. Það var eitthvað sem hann var ekki ánægður með, ég ætla ekki að fara ofan í kjölinn á því," segir Kári.
Gylfi Þór Sigurðsson kom í Víking í vetur og sú staða sem Gylfi spilaði hjá Víkingi til að byrja með virtist hafa áhrif á Valdimar.
„Þegar það koma nýir leikmenn, og Gylfi var að spila í þessari stöðu framarlega á miðjunni, þá fyllir hann svolítið það svæði sem Valdimar er vanur að spila í. Það bitnaði kannski svolítið á hans leik að það hafi komið inn lykilleikmaður sem spilar svolítið í því svæði sem hann er vanur að fá boltann. Það var ekki ástæðan fyrir því að Gylfi var færður á miðjuna, en það hentaði held ég öllum liðinu í betur að opna þetta svæði fyrir Valdimar þannig hann gæti fengið hann og snúið eins og hann er svo æðislegur í. Gylfi væri þá meira í því að sjá völlinn betur, horfa í átt að marki andstæðinganna frekar en eigin marki. Þeir eru mjög góðir vinir og spiluðu frábærlega saman."
Slúðrið segir að Valdimar vilji fra aftur út, en hann kom í Víking fyrir tímabilið 2024 eftir að hafa verið rúm þrjú ár í Noregi.
„Nei, hann hefur ekki rætt það við okkur. En það er ekkert ólíklegt að það komi tilboð, þetta er frábær leikmaður og hefur sýnt það. Hann er búinn að gera gríðarlega vel hjá okkur þannig mér finnst ekkert ólíklegt að það komi eitthvað tilboð í hann. Við skoðum það bara í sameiningu í rólegheitum," segir Kári.
Valdimar er fæddur árið 1999. Hann er kominn með níu mörk í deildinni, fyrsta kom í apríl en það næsta ekki fyrr en seint í ágúst.
Kári ræddi nánar um Gylfa Þór og verður sá hluti viðtalsins birtur seinna í dag.
Athugasemdir