Fernandes gæti farið frá Man Utd á næsta ári - Stórliðin berjast um Guehi - Fer Andrey Santos frá Chelsea?
   sun 07. september 2025 10:51
Útvarpsþátturinn Fótbolti.net
„Ef þú tapar fyrir Færeyjum ertu settur undir hita“
U21 landslið Íslands tapaði fyrir því færeyska á heimavelli.
U21 landslið Íslands tapaði fyrir því færeyska á heimavelli.
Mynd: Hrefna Morthens
Ólafur Ingi Skúlason.
Ólafur Ingi Skúlason.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska liðið virkaði andlaust.
Íslenska liðið virkaði andlaust.
Mynd: Hrefna Morthens
„Þetta er bara brandari, þetta er algjör brandari. Þetta hljóta að vera ein verstu úrslit sem okkar tvö elstu landslið hafa boðið upp á. Tap á heimavelli fyrir Færeyjum," segir Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

Íslenska U21 landsliðið fór mjög illa af stað í nýrri undankeppn fyrir EM og tapaði á fimmtudag fyrir færeyska U21 landsliðinu 1-2.

Lestu um leikinn: Ísland U21 1 -  2 Færeyjar U21

„Við þurfum að hafa í huga að U21 landslið Færeyja hefur um tíma verið ljómandi fínt, þeir leggja mikið upp úr því. Þeir spila mikið af ungum mönnum í deildinni sinni og eru með skýra leikfræði og verjast vel. Þeir spila sama bolta frá U19 og upp í A-landsliðið," segir Tómas.

„En hvernig okkur tókst að fara að þessu er með ólíkindum. Ég leit á byrjunarliðið okkar og hugsaði 'Við erum komnir með eitthvað' - Tíu atvinnumenn í byrjunariðinu. Logi Hrafn og Hlynur miðverðir og Jói Bjarna í bakverði, getur komið upp og skotið. En hvaða brandari var þetta? Á þessum fyrstu sextán mínútum fór Færeyjar tvisvar yfir miðju og skoraði í bæði skiptin."

Íslenska landsliðið virkaði andlaust og ekki mótiverað
Færeyjar komust snemma leiks tveimur mörkum yfir, Ísland minnkaði muninn með sjálfsmarki í seinni hálfleik en fann ekki jöfnunarmark.

„Ég heyrði talað um að það væri eins og það væri verið að reyna að troða þessum atvinnumönnum öllum í byrjunarliðið. Það væri ekki eins og það væri verið að byggja út frá hugmyndafræði. Ég hef séð úr þessum leik og var ekki hrifinn," segir Valur Gunnarsson í þættinum og Tómas heldur áfram:

„Tveir geta gengið stoltir frá borði, annar þeirra spilar í Bestu deildinni og heitir Ágúst Orri og hinn er Eggert Aron sem er klárlega besti leikmaðurinn í þessu liði," segir Tómas.

„Það var ótrúlega þröngt um þegar við komumst í stöður því Færeyingar spiluðu aftarlega en það var ótrúlega lítið að gerast. Þegar við komumst í stöður upp að endamörkum var lélegt. En ég hef miklu meiri áhyggjur af hvað gerðist þegar Færeyingar komast hinumegin. Skiptingarnar virkuðu ekki, voru skrítnir og liðið virkaði andlaust og ekki mótiverað."

Við viljum svar
Ólafur Ingi Skúlason er þjálfari U21 landsliðsins. Liðið vann fyrsta leikinn undir hans stjórn í síðustu undankeppni en hefur tapað fjórum mótsleikjum í röð eftir það og hafnaði í næstneðsta sæti í síðustu undankeppni.

„Það var fullt af hlutum sem voru í ólagi og Ólafur Ingi þarf að sætta sig við það að nú er hann að þjálfa U21 landsliðið. Við höfum náð fullt af árangri síðustu árin og jafnvel áratuginn, það hafa svakalegir prófílar þjálfað þetta og þetta er stór staða í þjálfaraumhverfinu. Ef þú vinnur ekki Færeyjar á heimavelli þá þarft þú bara að kyngja því að þú ert settur undir smá hita," segir Tómas.

Færeyjar hafa leikið tvo leiki í riðlinum og unnið báða. Liðið vann Eistland í fyrsta leik en íslenska liðið mætir einmitt Eistum í Tallinn á mánudag. Í útvarpsþættinum er kallað eftir svari frá íslenska liðinu í þeim leik.

„Það er undir teyminu að kveikja í mönnum, þetta U21 landslið fær tækifæri á móti Eistlandi til að svara. Við viljum svar!" segir Tómas Þór.
Útvarpsþátturinn - Skemmdarverk á íþrótt
Athugasemdir