„Mér fannst frammistaðan nokkuð góð lengst af. Varnarleikurinn var góður og við fáum sénsa til að skora fleiri mörk. Þetta var skemmtilegur leikur og kaflaskiptur. Mörkin hefðu mátt vera fleiri.“ sagði Magnús Már Einarsson, þjálfari Aftureldingar, eftir 1-1 jafntefli við Leikni í Mosfellsbænum í dag.
Lestu um leikinn: Afturelding 1 - 1 Leiknir R.
Hvað vantaði upp á hjá Aftureldingu í dag til að vinna leikinn?
„Það vantaði að klára færin. Við komumst líka í ágætar stöður sem við náðum ekki að nýta nógu mikið, það vantaði oft síðustu sendinguna. Það vantaði upp á í dag. Spilalega séð vorum við flottir en það vantaði bara upp á smiðshöggið í dag hjá okkur finnst mér.“
Það var mikill hiti undir lok leiks þar sem bæði lið vildu fá vítaspyrnu og fleira. Hvernig fannst Maggi þessi leikur vera dæmdur?
„Hann dæmdi þetta fínt í dag. Það er hiti í þessu og tilfinningar í báðar áttir, það er bara eins og fótboltinn er.“
Stigið gerir ekki mikið fyrir Aftureldingu en hvernig horfir Magnús á framhaldið og stöðuna í deildinni?
„Það þýðir ekkert að horfa á þessa töflu fyrr en mótið er búið. Við þurfum að einbeita okkur að okkur sjálfum og ná í eins flest stig og við getum. Eitt stig í dag, hefði viljað þrjú en næsta verkefni er bara Dalvík á þriðjudaginn og við ætlum að fara þangað og ná í þrjú stig.“ sagði Magnús.
Viðtalið við Magnús má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.