Guehi, Gomez, Konate, Botman, Mbappe, Salah, Onana og fleiri góðir í slúðri dagsins
   mán 08. september 2025 17:35
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
París
Augljós staðreynd, einn besti markmaður heims og orð sem ekki mátti segja
Icelandair
Hákon er fyrirliði landsliðsins í þessu verkefni í fjarveru Orra Steins.
Hákon er fyrirliði landsliðsins í þessu verkefni í fjarveru Orra Steins.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Lucas Chavelier var keyptur til PSG í sumar.
Lucas Chavelier var keyptur til PSG í sumar.
Mynd: EPA
Jú, Mbappe er snöggur.
Jú, Mbappe er snöggur.
Mynd: EPA
Hákon Arnar Haraldsson sat við hlið landsliðsþjálfarans Arnars Gunnlaugssonar á fréttamannafundi íslenska landsliðsins í dag. Hákon er leikmaður franska liðsins Lille og framundan er leikur, annað kvöld, gegn franska landsliðinu á Prinsavelli í París. Leikurinn hefst klukkan 18:45 að íslenskum tíma.

Gat staðfest að Mbappe væri snöggur leikmaður
Hákon var spurður hvort hann væri með einhverjar ábendingar til landsliðsþjálfarans Arnars Gunnlaugssonar um franska liðið.

„Ég mun reyna koma með einhver ráð," sagði Hákon á léttu nótunum. „Ég hef spilað á móti sumum af þessum leikmönnum með Lille og þeir eru mjög góðir."

Arnar skaut þá inn í hvort Hákon gæti t.d. sagt honum að Kylian Mbappe væri snöggur, Arnar uppskar hlátur og Hákon staðfesti að Mbappe væri snöggur.

Einn besti markmaður heims
Hákon var spurður út í Lucas Chavelier sem er varamarkmaður franska landsliðsins. Þeir léku saman í Lille en Chavalier var keyptur til PSG í sumar.

„Ég held að hann sé einn besti markmaður heims, hann sýndi það á síðasta ári með Lille. Hann getur varið nánast allt, það er ótrúlegt hversu mörg stig hann vann fyrir okkur á síðasta tímabili. Hann er besti markmaður sem ég hef spilað með. Hann á skilið að vera kominn til PSG og ég vona að honum gangi sem allra best," segir Hákon.

Væru annars ekki mættir til Parísar
Hákon var spurður út í hvort leikmannahópurinn líti á leikinn sem einhvers konar „bónusleik". Finnur hann að það sé trú innan hópsins á að Ísland eigi möguleika í Frakka?

„Já, annars værum við ekkert hérna, gætum alveg eins sleppt þessu. Það er alltaf trú, auðvitað verður þetta ógeðslega erfitt, Frakkar eru með nokkra af bestu leikmönnum heims. Auðvitað er trú annars værum við ekkert hérna."

Engin aukapressa
Hann var svo spurður hvort það væri aukin pressa á sér að standa sig á franskri grundu.

„Nei, ekkert þannig. Ég spila í Frakklandi í hverri viku, þetta er bara eins og hver annar leikur varðandi það, það verður vonandi góð stemning og vonandi náum við í stig. Ég finn ekki fyrir meiri pressu," segir Hákon.

Gæti sagt einhver orð til að æsa aðeins í Frökkunum
„Ég er ekki nógu góður í frönsku, en ég get samt sagt einhver orð sem ég má ekki vera að segja hérna," sagði Hákon léttur og uppskar hlátur.

„En kannski á morgun, að æsa aðeins í þeim, en franskan mín er ekki nógu góð því miður," segir Hákon sem er fyrirliði landsliðsins í þessu verkefni.
Athugasemdir
banner