fim 08. október 2020 14:28
Elvar Geir Magnússon
KR sektað fyrir ummæli Rúnars um Ólaf Inga
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á fundi aga- og úrskurðarnefndar KSÍ í vikunni voru tekin fyrir ummæli Rúnars Kristinssonar, þjálfara KR, sem framkvæmdastjóri sendi á borð nefndarinnar.

Um er að ræða ummæli Rúnars sem birtust á Fótbolta.net og Vísi eftir dramatískan sigur Fylkis gegn KR þann 27. september.

Var um að ræða opinber ummæli sem eru að mati framkvæmdastjóra til þess fallin að skaða ímynd íslenskrar knattspyrnu og með þeim sé vegið að heiðarleika leikmanns Fylkis.

Ákvað Aga- og úrskurðarnefnd KSÍ á fundi sínum 6. október að sekta knattspyrnudeild KR, um kr. 50.000,- vegna opinberra ummæla Rúnars.

Ummæli Rúnars beindust að Ólafi Inga Skúlasyni, spilandi aðstoðarþjálfara Fylkis:

„Fíflagangur í Ólafi Inga, hann hagar sér eins og hálfviti inn á vellinum og fiskar rautt spjald á markmanninn okkar og hendir sér niður, hann leitar með höfuðið í hendina á Beiti, sem er löngu búinn að kasta boltanum út. Þetta er bara ljótt og við viljum ekki sjá þetta í fótbolta."

„Ólafur Ingi hagar sér eins og fífl og er að leitast eftir því að koma hausnum sínum í hendurnar á Beiti sem er löngu búinn að kasta út boltanum, pata út höndunum og benda eitthvað, þá hleypur hann með hausinn í hendurnar á honum og hann er bara að fiska þetta. Hann lætur alltaf svona."

„Þegar menn eru að svindla og ná sér í stig þannig, þá er ég ekki sáttur."
Athugasemdir
banner
banner
banner