Trúi ekki að þetta séu vinnubrögð sem eru samþykkt og við lýði
Rúnar Páll Sigmundsson sagði óvænt upp starfi sínu sem þjálfari Stjörnunnar í liðinni viku. Einhverjar kenningar eru um að það tengist sterklega Sölvamálinu svokallaða.
Sölvi Snær Guðbjargarson er einn efnilegasti leikmaður Stjörnunnar, unglingalandsliðsmaður og hefur leikið með meistaraflokki félagsins frá því hann kom inn í liðið árið 2018.
Sölvi Snær Guðbjargarson er einn efnilegasti leikmaður Stjörnunnar, unglingalandsliðsmaður og hefur leikið með meistaraflokki félagsins frá því hann kom inn í liðið árið 2018.
Sölvi er að renna út á samningi eftir tímabilið og hefur ekki samþykkt nýjan samning til þessa. Breiðablik hóf viðræður við Sölva skömmu fyrir mót og hætti Stjarnan við að spila æfingaleik við Breiðablik út af því.
Sagan segir að Rúnar hafi fengið skilaboð um að spila ekki Sölva á meðan staðan væri svona. Sölvi kom inn á sem varamaður gegn Leikni fyrir rúmri viku síðan og var stjórn Stjörnunnar ósátt með þá ákvörðun að Rúnar hafi sett Sölva inn á. Það hafi verið kornið sem fyllti mælin hjá Rúnari og ákvað hann að kalla þetta gott á miðvikudaginn. Eins og fyrr segir þá eru þetta allt sögusagnir, ekkert hefur fengist staðfest í þessum efnum.
Sölvi kaus að tjá sig ekki um þetta mál þegar fréttaritari hafði samband við hann á fimmtudag.
Þorvaldur Örlygsson er nú einn þjálfari liðsins en hann og Rúnar voru saman í teymi frá því Þorvaldur kom til félagsins í vetur.
Atli Viðar Björnsson, sérfræðingur í Pepsi Max-stúkunni og fyrrum leikmaður FH, ræddi við Tómas Þór Þórðarson í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær.
„Ég finn til með honum (Sölva). Mér finnst þetta með ólíkindum sorglegt mál, að þetta hafi verið eins og menn tala um eitthvað korn sem fyllti einhvern mæli og menn geti ekki unnið saman lengur."
„Ég gef mér það að þegar fullorðnir deila að það sé ekki einhverjum einum að kenna og það hafi eitthvað búið að ganga á og hallað á báða aðila, Rúnar og stjórnina til skiptis."
„Það virðist vera þannig að mál Sölva Snæs blandist inn í þetta. Ef það er rétt, sem ég óttast að sé, að stjórnin hafi verið að skipa Rúnari að nota ekki Sölva, það finnst mér grafalvarlegt mál. Þá ertu farinn að skipta þér að þjálfaranum og farinn að sýna honum vantraust. Þá slitnar upp úr samstarfinu."
„En Sölvi Snær er ekki að gera neinn skapaðan hlut rangt. Fyrir mér, á það að gerast núna hafi það ekki þegar gerst, að stjórnarmenn Stjörnunnar hringi í Sölva og biðji hann afsökunar. Þeir eiga ekki að skipta sér að því hvort þjálfarinn noti hann eða ekki. Hann er með samning út þetta tímabil. Þeir réðu hann til að spila fótbolta með Stjörnunni þangað til þá."
„Þeir hafa ekkert með það að gera að skipta sér að því hvort hann er í liðinu núna eða ekki. Það er þjálfari liðsins sem þeir ráða vinnu (sem á að stjórna því)."
„Ég frábið mér svona vinnubrögð í íþróttahreyfingunni og ef menn vilja standa fyrir þetta þá myndi ég nú helst kjósa að menn fyndi sér eitthvað annað að gera því ég trúi ekki að þetta séu vinnubrögð sem eru samþykkt og við lýði," sagði Atli Viðar.
„Ætla þeir að halda honum í frystinum fram í október? Ætla þeir að drepa sumarið hjá honum af því hann spjallaði við annað fótboltalið? Af því að þeir buðu ekki uppöldnum manni samning? Hvaða endalausa þvæla er þetta?" spurði Tómas.
„Ég ætla bara rétt að vona að mönnum detti ekki þessi vitleysa í hug, að fara halda aftur af framþróun og þroska ungs efnilegs fótboltamanns með svona stælum og bulli. Þetta er ekki í lagi og ég held að flestallir sem hafa talað við forsvarsmenn annara liða þeir mæta ekki öðru en virðingu."
„Ef menn þurfa að taka ákvörðun þá tala menn saman og ef hún er tekin þá er tilkynnt hvort menn ætli að koma í liðið eða ekki. Flestallir segja bara gangi þér vel, hvort sem þú ætlar í liðið eða ekki. Svona þvæla, ég næ ekki upp í nefið á mér þeir leyfi sér þetta," sagði Atli Viðar.
„Ef Breiðablik finnst hann það góður að þeir vilja bjóða honum X en Stjarnan ætlar bara að bjóða honum Y. Svona er regluverkið í heimsfótboltanum," sagði Tómas.
Umræðuna má hlusta á í spilaranum hér að neðan og hefst eftir 100 mínútur (1klst 40 mín).
Athugasemdir