Bayern setur meiri kraft í viðræður við Musiala - Newcastle fylgist með Sane - Barcelona vill Kimmich
   mán 09. september 2024 11:32
Elvar Geir Magnússon
John O'Shea svarar umræðu í fjölmiðlum: Heimir er sá sem ræður
Heimir Hallgrímsson ræðir við John O'Shea.
Heimir Hallgrímsson ræðir við John O'Shea.
Mynd: Getty Images
Heimir á landsliðsæfingu.
Heimir á landsliðsæfingu.
Mynd: Getty Images
Írland tapaði gegn Englandi í fyrsta leik Heimis Hallgrímssonar við stjórnvölinn en á morgun mætir írska liðið Grikklandi.

Það vakti athygli írskra fjölmiðla að John O'Shea aðstoðarmaður Heimis mætti á fréttamannafund í dag en venjulega er það aðalþjálfarinn.

Heimir treysti mikið á O'Shea við valið á hópnum og svo byrjunarliðinu gegn Englandi. Þá voru aðstoðarmenn Heimis áberandi í leiknum sjálfum.

Brian Kerr, fyrrum landsliðsþjálfari Írlands, sagði í viðtali að Heimir þyrfti að sýna það í leiknum gegn Grikkjum á morgun að það sé hann sem sé stjórinn.

„Hann var að hitta leikmenn í fyrsta sinn fyrir nokkrum dögum og virtist láta Paddy McCarthy og John O'Shea sjá mikið um að tala. Hann hefur sjálfur sagt að hann sé að læra inn á leikmenn sína og maður sá það augljóslega í leiknum sjálfum," segir Kerr.

„Hann þarf að verða ákveðnari. Hann þarf að sýna leikmönnum augljóslega að það er hann sem ræður, jafnvel þótt að hann sé að koma inn í aðra menningu."

Stjórinn er stjórinn og leikmenn eru með það á hreinu
O'Shea segir að í skipulagningu fyrir verkefnið hafi verið ákveðið að hann myndi taka þennan fréttamannafund fyrir leikinn gegn Grikklandi.

„Við gefum stjóranum allan þann tíma sem hægt er til að undirbúa leikinn," sagði O'Shea á fréttamannafundinum og sagði að það væri enginn ruglingur hjá leikmönnum um það hver væri með völdin.

„Alls ekki. Stjórinn er sá sem ræður og það er alveg kristaltært. Eins og ég segi þá var þetta ákveðið fyrirfram og ekki talin nein ástæða til að breyta því. Ég er aðstoðarþjálfarinn og stjórinn er stjórinn, leikmenn eru með það á hreinu."

„Þið getið ímyndað ykkur ef ég færi til Íslands og tæki við liðinu þar. Þá myndi ég treysta á aðstoðarmenn mína."
Athugasemdir
banner
banner
banner