
Erik Hamren, landsliðsþjálfari Íslands, segir að Kolbeinn Sigþórsson verði að fara að spila með félagsliði til að halda áfram sæti sínu í landsliðinu.
Kolbeinn er kominn á fulla ferð eftir mjög erfið meiðsli sem héldu honum frá keppni í rúmt eitt og hálft ár. Hann hefur verið í síðustu tveimur landsliðshópum og er áfram í hópnum gegn Belgíu og Katar.
Kolbeinn er hins vegar úti í kuldanum hjá félagsliði sínu Nantes í Frakklandi en hann hefur einungis fengið að æfa með varaliðinu þar á þessu tímabili.
„Hann er að æfa með varaliðinu og ekki að spila neina leiki," sagði Hamren í viðtali í dag.
„Ég sé möguleika hans með okkur vera meiri í framtíðinni, þegar undankeppni EM byrjar í mars. Það er mikilvægt fyrir hann að hitta okkur og ef hann getur komið til baka þá gæti hann orðið virkilega góður fyrir okkur í framtíðinni," bætti Hamren við en hann segir að Kolbeinn verði að fara að spila til að vera áfram í hópnum hjá landsliðinu.
„Hann þarf að byrja að spila. Hvort sem það er með nýju félagi eða í núverandi félagi. Við getum ekki gert þetta svona í langan tíma en við getum gert þetta núna í haust."
Hér að ofan má sjá Hamren tala um Kolbein.
Athugasemdir