Arne Slot, stjóri Liverpool, segir að Mikel Arteta, stjóri Arsenal, eigi hrós skilið fyrir árangur sinn með Lundúnaliðinu.
Arsenal er í 2. sæti með þriggja stiga forystu á Man City. Takist liðinu að halda 2. sætinu er þetta þriðja árið í röð sem liðið endar í þar. Arteta hefur fengið gagnrýni fyrir að ná ekki að taka næsta skref.
„Allir í þessum bransa ætla sér að verða betri daginn eftir og á næsta tímabili. Bætingar geta komið frá æfingasvæðinu og með því að bæta við sig leikmönnum," sagði Slot.
„Arsenal náði góðum árangri á síðustu leiktíð og þeir bættu við sig Raheem Sterling, Riccardo Calafiori og Mikel Merino og urðu enn sterkari. Mikel hefur unnið þarna í fimm ár og á að mínu mati að fá hrós fyrir það hvernig liðið spilar."
„Þeir geta spilað nánast hvernig sem er. Það er mikið afrek að vera með einn stíl en ég sá lið Mikel spila öðruvísi gegn PSG úti og heima. Þeir geta varist lágt á vellinum og verið með yfirhöndina og pressað hátt. Þeir geta spilað út frá markmanni og sparkað langt," sagði Slot að lokum.
Athugasemdir