Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   sun 11. maí 2025 13:59
Brynjar Ingi Erluson
Sveindís kvaddi Wolfsburg með stæl - Karólína með stoðsendingu
Kvenaboltinn
Sveindís Jane skoraði og lagði upp
Sveindís Jane skoraði og lagði upp
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Íslensku landsliðskonurnar Sveindís Jane Jónsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir spiluðu kveðjuleik sinn er Wolfsburg vann Bayer Leverkusen, 3-1, í lokaumferð þýsku deildarinnar í dag.

Wolfsburg tilkynnti á dögunum að þetta yrði síðasta tímabil Sveindísar með liðinu en samningur hennar við félagið rennur út í sumar.

Sveindís kvaddi félagið með því að skora og leggja upp mark gegn Leverkusen.

Hún lagði upp fyrsta mark Wolfsburg fyrir Jule Brand og skoraði síðan annað markið fjórum mínútum síðar.

Karólína Lea, sem er á láni hjá Leverkusen frá Bayern München, snýr aftur til Bayern í sumar, en hún náði einnig að kveðja á góðum nótum með því að leggja upp eina mark Leverkusen í síðari hálfleiknum.

Wolfsburg hafnaði í öðru sæti með 51 stig og mun spila í Meistaradeildinni á næsta tímabili en Leverkusen tók 4. sætið í ár.

Glódís Perla Viggósdóttir var í vörn meistaraliðs Bayern München sem vann Essen 3-0. Bayern vann deildina með 59 stig.

Emilía Kiær Ásgeirsdóttir byrjaði þá hjá Leipzig sem tapaði fyrir Eintracht Frankfurt, 2-0. Leipzig hafnaði í 8. sæti með 27 stig.

Miðjumaðurinn Hildur Antonsdóttir var í byrjunarliði Madrid sem gerði markalaust jafntefli við Levante í Liga F á Spáni. Ásdís Karen Halldórsdóttir var ekki með Madrídarliðinu, en það situr í 10. sæti fyrir lokaumferðina.

Daníela Dögg Guðnaóttir byrjaði hjá Álasundi sem gerði 1-1 jafntefli við Haugesund í norsku B-deildinni. Álasund er í 3. sæti deildarinnar með 13 stig.


Athugasemdir