Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   sun 11. maí 2025 17:02
Ívan Guðjón Baldursson
Amorim: Mér er alveg sama um þennan úrslitaleik
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Rúben Amorim þjálfari Manchester United var gríðarlega vonsvikinn eftir 0-2 tap á heimavelli gegn West Ham í dag og svaraði spurningum fréttamanna.

Tomas Soucek og Jarrod Bowen skoruðu mörk Hamranna í nokkuð jöfnum leik þar sem Rauðu djöflarnir fengu mikið af marktækifærum sem tókst ekki að nýta. Man Utd er í 16. sæti úrvalsdeildarinnar eftir þetta tap, einu stigi fyrir ofan Tottenham í 17. sæti.

Amorim segir vandamál liðsins vera hugarfarslegt, leikmenn séu ekki nógu hræddir við að tapa fótboltaleikjum í Manchester-treyjunni.

„Við lendum alltof oft í þessu að við sköpum fleiri færi heldur en andstæðingurinn en töpum samt leiknum. Við hefðum auðveldlega getað komið í veg fyrir bæði mörkin sem við fengum á okkur í dag með meiri ákefð í varnarleiknum. Það vantar ákefð og grimmd þegar strákarnir eru að verjast í kringum vítateiginn," sagði Amorim.

„Ég vil að leikmönnum líði eins og það sé heimsendir þegar þeir eru að tapa fótboltaleik eða fá mark á sig. Þetta er stórt vandamál sem við erum að glíma við innan félagsins. Leikmenn verða að stíga upp því þetta er gríðarlega mikilvæg stund í sögu félagsins.

„Við verðum að laga hugarfarið hjá okkur. Leikmenn virðast ekki vera smeykir við að tapa þó að þeir beri merki Manchester United."


Amorim segir það vera í sínum verkahring að laga ástandið í hópnum, annars þurfi félagið að ráða nýjan þjálfara inn sem getur hjálpað leikmönnum að bæta sig.

„Við verðum að vera hræddir við að tapa ef við viljum starfa fyrir svona stórt félag. Ég er ekki að kenna leikmönnum um. Þetta er mér að kenna og ef mér tekst ekki að laga hugarfarið hjá leikmönnum þá þarf að skipta okkur út. Okkur öllum."

Varnarmaðurinn ungi Leny Yoro fór meiddur af velli og vonast Amorim til að hér sé um smávægileg meiðsli að ræða. Amorim vonast til að geta notað Yoro gegn Tottenham í úrslitaleik Evrópudeildarinnar sem fer fram eftir 10 daga.

„Allir eru að einblína á þennan úrslitaleik en hann skiptir ekki meira máli heldur en hugarfar leikmanna. Þó að við vinnum þennan úrslitaleik þá eigum ekkert erindi í Meistaradeildina á næstu leiktíð án stórra hugarfarsbreytinga. Mér er alveg sama um þennan úrslitaleik útaf því að vandamálin okkar eru miklu stærri en það."
Athugasemdir
banner
banner