Alonso mikill aðdáandi Zubimendi - Funda í þriðja sinn um Fernandes - Ten Hag að taka við Leverkusen?
   sun 11. maí 2025 13:08
Brynjar Ingi Erluson
England: Newcastle steig stórt skref í átt að Meistaradeildinni
Newcastle er í góðum málum í Meistaradeildarbaráttunni
Newcastle er í góðum málum í Meistaradeildarbaráttunni
Mynd: EPA
Newcastle 2 - 0 Chelsea
1-0 Sandro Tonali ('2 )
2-0 Bruno Guimaraes ('90 )
Rautt spjald: Nicolas Jackson, Chelsea ('36)

Newcastle United er skrefi nær markmiði sínu um að komast í Meistaradeild Evrópu fyrir næstu leiktíð eftir að liðið vann Chelsea, 2-0, í 36. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á St. James' Park í dag.

Það tók heimamenn ekki nema tæpar tvær mínútur að komast yfir í leiknum.

Anthony Gordon geystist upp vinstri vænginn og var tekinn niður í teignum en ekkert dæmt. Leikurinn hélt áfram og tókst Newcastle að vinna boltann aftur og var það Jacob Murphy sem kom honum inn á teiginn á Sandro Tonali sem skoraði.

Vont versnaði fyrir Chelsea á 36. mínútu er senegalski framherjinn Nicolas Jackson var rekinn af velli fyrir að gefa Sven Botman olnbogaskot. Hann fékk upphaflega gula spjaldið en litnum breytt eftir VAR-skoðun og Chelsea manni færri.

Chelsea gekk erfiðlega að brjóta vörn Newcastle á bak aftur stærstan hluta leiksins en það kom aðeins meira líf í leikinn hjá þeim bláu í síðari.

Marc Cucurella átti fínt skot sem Nick Pope varði. Þrátt fyrir að vera manni færri tókst Chelsea að halda ágætlega í boltann og á lokamínútunum var Enzo Fernandez ekki langt frá því að jafna metin en aftur varði Pope vel.

Chelsea-menn verðskulduðu jöfnunarmark á þessum tímapunkti og var Reece James ekki langt frá því að skora það en skalli hans fór rétt yfir markið.

Stuttu síðar kom rothögg frá heimamönnum. Newcastle fékk aukaspyrnu sem var komið inn á teiginn á Dan Burn. Hann náði að leggja hann fyrir Bruno Guimaraes sem lét vaða fyrir utan teig og fór boltinn af varnarmanni og yfir Robert Sanchez í markinu.

Þrjú risastór stig til Newcastle sem er nú með 66 stig í 3. sæti en Chelsea áfram í 5. sæti með 63 stig. EIns og staðan er núna gætum við fengið hreinan úrslitaleik um Meistaradeildarsæti í lokaumferðinni er Chelsea heimsækir Nottingham Forest.
Athugasemdir
banner