Stórliðin berjast um Joao Gomes - Mikill áhugi á Rashford - Hvert fer Kolo Muani?
   lau 11. janúar 2025 09:35
Elvar Geir Magnússon
Kristall um Húbbabúbba: Þénum á við stærstu tónlistarstjörnur Íslands
Kristall Máni Ingason í leik með U21 landsliði Íslands.
Kristall Máni Ingason í leik með U21 landsliði Íslands.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Húbabúbba tvíeykið vinsæla.
Húbabúbba tvíeykið vinsæla.
Mynd: Instagram/kristallingason
Danskir fjölmiðlar eru farnir að vekja því athygli að Kristall Máni Ingason sé að byggja sér upp annan feril utan fótboltans. Auk þess að spila fyrir danska úrvalsdeildarliðið Sönderjyske er Kristall annar helmingur Húbbabúbba tvíeykisins sem sló í gegn á Íslandi á liðnu ári.

Kristall segir í viðtali við Tipsbladet að tónlistin sé aðeins flokkuð sem áhugamál sem stendur, þó áhugamál sem gefur vel í aðra höndina.

„Ég myndi segja að við þénum mjög vel frá tónlistinni. Við þénum á við nokkrar af stærstu tónlistarstjörnur Íslands," segir Kristall sem segir að fótboltinn sé klárlega í fyrsta sæti hjá sér þó hann voni auðvitað að Húbabúbba verkefnið haldi áfram að vaxa.

Eins og flestir vita er Eyþór Wöhler, sem er að ganga í raðir Fylkis frá KR, með Kristali í Húbbabúbba bandinu. Þeirra vinsælasta lag er með 330 þúsund hlustanir á Spotify en vinsældirnar koma Kristali ekki á óvart.

„Við erum í rauninni ekki svo hissa. Þetta byrjaði sem grín. Svo settum við lagið á TikTok og boltinn fór að rúlla. Þá héldum við áfram og gerðum fleiri lög. Í hreinskilni er þetta ansi góð tónlist svo þetta kemur mér ekki á óvart," segir Kristall.

Kristall, sem er 22 ára, er með eitt mark og tvær stoðsendingar í tíu leikjum fyrir Sönderjyske í dönsku úrvalsdeildinni. Þar situr liðið í tíunda sæti og er í fallbaráttu.

„Ég er nýkominn úr meiðslum en allt er á rétrri leið. Ég er bara búinn með nokkrar æfingar með liðinu og sjáum hvernig líkaminn bregst við. Ef það verða engin bakslög verð ég vonandi klár í fyrsta leik eftir vetrarfrí í febrúar," segir Kristall Máni við danska fjölmiðla.
Athugasemdir
banner
banner
banner