Amorim gæti stigið frá borði ef slæmt gengi Man Utd heldur áfram - Bayern ætlar ekki að bjóða Sane hærri samning
   sun 11. maí 2025 21:18
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Röð mistaka gaf Víkingi sigurinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur R. 3 - 1 FH
1-0 Sveinn Gísli Þorkelsson ('20)
1-1 Böðvar Böðvarsson ('32)
2-1 Tómas Orri Róbertsson ('36, sjálfsmark)
3-1 Daníel Hafsteinsson ('67)

Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 -  1 FH

Víkingur R. tók á móti FH í seinni leik dagsins í Bestu deild karla og fór leikurinn fjörlega af stað. FH-ingar fengu góð færi á fyrstu 20 mínútunum en gáfu svo klaufalega hornspyrnu frá sér og lentu undir.

Sveinn Gísli Þorkelsson skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild með skalla eftir hornspyrnu frá Helga Guðjónssyni.

Tólf mínútum síðar jöfnuðu gestirnir úr Hafnarfirði þegar Böðvar Böðvarsson fylgdi aukaspyrnu frá Kjartani Kára Halldórssyni eftir með marki. Pálmi Rafn Arinbjörnsson markvörður Víkings kýldi boltann beint út á Böðvar.

Gleði gestanna lifði þó stutt því Víkingur tók forystuna nokkrum mínútum síðar, þegar Tómas Orri Róbertsson skoraði virkilega klaufalegt sjálfsmark.

Tómas Orri var með boltann í vörn eftir að hafa fengið mjög erfiða sendingu frá Mathias Rosenörn markverði og fékk þunga pressu á sig frá Daníel Hafsteinssyni sem náði að pota í boltann. Boltinn rúllaði í átt að marki og leyfði Nikolaj Hansen honum að fara í gegnum klofið á sér, haldandi að hann væri í rangstöðu. Þannig plataði hann Rosenörn og endaði boltinn í netinu.

Rosenörn vildi fá dæmda rangstöðu á Nikolaj fyrir að trufla leikinn, en eftir athugun í VAR-herberginu kom í ljós að Tómas Orri var síðastur að snerta boltann. Nikolaj var því ekki rangstæður og hefði mátt leika boltanum og fær Tómas skráð sjálfsmark á sig.

Staðan var 2-1 eftir gríðarlega skemmtilegan fyrri hálfleik og var síðari hálfleikurinn talsvert rólegri. Kjartan Kári fékk gott færi fyrir FH á 65. mínútu en skömmu síðar tvöfaldaði Daníel forystu heimamanna eftir vandræðagang í varnarleik FH.

Rosenörn gaf skelfilega sendingu frá markinu sem rataði beint á Daníel, sem þakkaði fyrir sig og skoraði úr auðveldu færi. Öll mörk Víkinga komu því eftir vandræðagang í vörn FH.

Bæði Víkingur og FH komust nálægt því að bæta öðru marki við leikinn á lokakaflann en tókst ekki. Lokatölur urðu því 3-1 fyrir Víking sem jafnar Breiðablik og Vestra á stigum á toppi Bestu deildarinnar.

FH situr eftir með fjögur stig eftir sex fyrstu umferðirnar. Hafnfirðingar deila botnsæti deildarinnar með KA eftir 3-0 sigur gegn Val í síðustu umferð.
Athugasemdir
banner