Ísland 2 - 1 Tékkland
1-0 Andri Lucas Guðjohnsen ('44)
1-1 Christophe Kabongo ('87)
2-1 Andri Fannar Baldursson ('94)
Lestu um leikinn: Ísland U21 2 - 1 Tékkland U21
Ísland tók á móti Tékklandi á Víkingsvelli í undankeppni fyrir EM U21 árs landsliða og úr varð hörkuleikur.
Gestirnir frá Tékklandi byrjuðu betur þar sem þeir hæfðu slána en Strákarnir okkar unnu sig inn í leikinn og sköpuðu hættu áður en fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós.
Eggert Aron Guðmundsson vann boltann á eigin vallarhelmingi, keyrði upp og fann Ísak Andra Sigurgeirsson, fyrrum liðsfélaga sinn hjá Stjörnunni, sem þræddi boltann innfyrir á Andra Lucas Guðjohnsen. Andri kláraði fagmannlega og gaf Íslandi 1-0 forystu rétt fyrir leikhlé.
Tékkarnir komust nálægt því að jafna í upphafi síðari hálfleiks en leikurinn jafnaðist aftur út og fengu bæði lið hættuleg færi, þar sem Tékkar áttu meðal annars skot í utanverða stöngina.
Strákunum okkar tókst að róa leikinn aðeins niður en þó ekki nóg, því gestirnir náðu að setja jöfnunarmark á lokakaflanum. Andri Lucas átti slæma sendingu til baka sem Tékkarnir nýttu sér og skoraði Christophe Kabongo, sem hafði komið inn tíu mínútum fyrr.
Staðan var því orðin jöfn, 1-1, og fjórar mínútur í uppbótartíma. Strákarnir okkar tóku að sækja, fengu hornspyrnu og í kjölfarið skoraði Andri Fannar Baldursson glæsilegt sigurmark með frábæru skoti utan vítateigs.
Lokatölur urðu því 2-1 og byrjar Ísland undankeppnina á sigri. Þetta er ákveðin hefnd fyrir U21 liðið okkar eftir að Tékkar höfðu betur í umspili fyrir ári síðan.