Rashford lækkar launakröfur til að komast til Barcelona - Napoli vill Kiwior - Aston Villa í leit að markverði
   þri 12. september 2023 21:40
Ívan Guðjón Baldursson
Emmanuel Dennis kýs að skipta til Tyrklands
Mynd: EPA
Mynd: EPA

Nígeríski sóknarmaðurinn Emmanuel Dennis er á förum frá Nottingham Forest þar sem ekkert pláss er fyrir hann í byrjunarliðinu undir stjórn Steve Cooper.


Dennis kom að fjórum mörkum í nítján úrvalsdeildarleikjum með Forest á síðustu leiktíð, en þar áður hafði hann verið algjör lykilmaður í liði Watford sem féll. 

Dennis fann ekki taktinn með nýjum liðsfélögum í Nottingham og missti sæti sitt í leikmannahópinum í sumar.

Það er þó mikill áhugi á honum víðs vegar um heim þar sem rússnesk og tyrknesk félög eru meðal þeirra sem hafa sett sig í samband við Forest, en Dennis virðist vera á leið til Tyrklands sem stendur.

Fótboltafréttamaðurinn Fabrizio Romano heldur því fram að Dennis geti valið á milli Adana Demirspor og Istanbul Basaksehir, sem hafa bæði boðist til að fá hann á lánssamningi sem gildir út tímabilið.

Þessi 25 ára gamli sóknarmaður hefur í heildina komið að 20 mörkum í 52 leikjum í ensku úrvalsdeildinni og gæti reynst gríðarlega öflugur liðsstyrkur í tyrknesku ofurdeildinni.

Dennis, sem á 8 landsleiki að baki fyrir sterkt lið Nígeríu, er samningsbundinn Nottingham Forest næstu þrjú árin.


Athugasemdir
banner
banner