banner
   fim 12. nóvember 2020 19:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Finnur til Breiðabliks á réttum forsendum - „Auðveldar foreldrunum lífið"
Finnur í treyju Breiðabliks árið 2015.
Finnur í treyju Breiðabliks árið 2015.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik síðasta sumar.
Úr leik síðasta sumar.
Mynd: Hulda Margrét
Viktor Örn Margeirsson.
Viktor Örn Margeirsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Óskar Hrafn Þorvaldsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er rosa góð tilfinning, það var ekki auðveld ákvörðun að fara frá KR en þegar ég er búinn að melta þetta aðeins þá er ég mjög ánægður með hana og gott að vera kominn aftur í Kópavoginn," sagði Finnur Orri Margeirsson aðspurður um hvernig tilfinningin væri að vera kominn aftur í Breiðablik.

Finnur samdi til þriggja ára við Breiðablik eftir að hafa spilað með KR síðustu fimm tímabil. Þar áður lék hann eitt tímabil með Lilleström en snýr nú heim í uppeldisfélagið. Finnur er 29 ára gamall miðjumaður.

Vildi koma aftur og spila stórt hlutverk
Af hverju er Finnur Orri kominn aftur í Breiðablik á þessum tímapunkti?

„Það var sá tímapunktur núna að annað hvort ætlaði ég að taka að lágmarki þrjú ár í viðbót hjá KR eða færa mig yfir. Mig hefur alltaf langað að spila aftur með Breiðablik og þegar ég fór á sínum tíma þá var ég með það í huganum að ég myndi spila einhvern tímann aftur með Breiðablik. Ég mat það svo að núna væri góður tímapunktur fyrir mig að koma aftur í Kópavoginn. Bæði út frá standinu á mér sjálfum og síðan var mín óskað í Kópavoginum."

Finnur talar um að lágmarki þrjú ár í viðbót hjá KR en það er samningslengdin sem hann sóttist eftir. Stóð til boða að semja til styttri tíma hjá KR og sjá svo til með framhaldið?

„Jú, eflaust. Ég er að hugsa þetta út frá mínum bæjardyrum, kannski hefði verið hægt að díla um slíkt en hvað hefði gerst að ári þá veit maður það ekki. Blikarnir sóttust eftir mér núna og þeir eru með rosalega öflugt lið. Kannski hefði verið einhver allt önnur sviðsmynd eftir ár og ekki jafnmikil vöntun á leikmanni eins og mér hjá Breiðablik. Mér fannst mjög spennandi að fara núna í Breiðablik og liðið vildi fá mig."

Horfir Finnur á þetta sem núna-eða-aldrei tímapunkt til að koma heim í Blika?

„Nei, ekki þannig. Mig langar að spila fyrir Breiðablik á réttum forsendum. Núna er ég á góðum aldri og átti gott tímabil. Ég vildi ekki koma í Breiðablik undir blálokin á ferlinum í eitthvað 'high-five' hlutverk og vera með á æfingum. Ég vildi koma og verða mikilvægur hluti af liðinu."

Voru önnur félög sem höfðu áhuga á Finni?

„Nei í raun og veru ekki. Blikarnir voru þeir einu sem höfðu samband eins og ég best veit. Nú er kominn þessi regla að það megi hafa samband við leikmenn áður en samningurinn rennur út en ég heyrði nú bara nýlega í þeim og það eftir að þeir höfðu sent fyrirspurn á KR."

Verið fáránlegt ef bræðurnir hefðu ekki spilað saman
Hvernig náði Breiðablik að sannfæra Finn um að koma yfir?

„Það er einn Bliki sem stendur mér mjög nærri og það er hann Viktor." Viktor Örn er bróðir Finns Orra og er leikmaður liðsins.

„Auðvitað var hann búinn að ýta í mig en svo þegar kemur að viðræðunum fóru Blikarnir í málin, höfðu samband þegar það mátti og þá var það þjálfarinn fyrst og fremst. Ég á góða félaga úr Blikaliðinu og hitti þá reglulega. Það er gott að koma aftur að góðum mönnum í Breiðablik."

Er spennandi að vera í sama liði og Viktor Örn?

„Já það er það, við höfum aldrei spilað saman og hann var brjóta sér leið inn í meistaraflokkinn akkúrat þegar ég fer á sínum tíma. Vonandi náum við mörgum góðum leikjum saman. Auðvitað kitlar það að ná að spila leiki með bróður sínum. Sérstaklega þegar horft verður til baka eftir einhver ár þá hefði verið fáránlegt ef við hefðum aldrei náð að spila saman."

Auðveldar foreldrunum lífið
Var eitthvað eitt sem Finnur saknaði mest við að vera í Breiðablik?

„Þetta er uppeldisfélagið mitt og ég byrjaði þarna sjö ára gamall. Það eru miklar og sterkar tengingar við staðinn og fólkið í kringum félagið. Að sjálfsögðu er gott að endurnýja þau kynni en það er erfitt að benda á eitthvað eitt sem ég saknaði meira en annað."

„Eigum við ekki að segja að þetta auðveldi foreldrum mínum lífið, að þurfa ekki að mæta á tvo leiki í umferð eða sitja í miðjunni þegar við bræður erum að spila. Ég held að þau hafi verið hvað ánægðust með þetta."


Sóttur sem miðjumaður
Eitthvað hefur verið rætt um að Finnur gæti komið inn í lið Breiðabliks sem einn af þremur miðvörðum. Ræddi Finnur við Óskar þjálfar um hvar hann sæi sig fyrir sér í liði sínu?

„Það er merkilega mikið spurt mig um þetta. Já, við ræddum vel og mikið saman og hann sagði mér hvernig fótbolta hann vill spila og hann sækir mig sem miðjumann og vill hafa mig í einhverju hlutverki þar. En við sáum samt síðasta sumar að það voru alls konar leikmenn sem leystu alls konar stöður og ef það kemur upp þá er það ekkert mál."

„Ég vil bara spila og ég held að kraftar mínir geti nýst á miðjunni og eflaust einhvers staðar annars staðar líka. Það stefnir í skemmtilegt tímabil og ég hlakka til að fara á æfingar,"
sagði Finnur að lokum.
Athugasemdir
banner
banner