Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fös 13. mars 2020 11:10
Elvar Geir Magnússon
Ísland - Rúmenía bak við luktar dyr ef leikurinn fer fram
Laugardalsvöllur.
Laugardalsvöllur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá og með mánudeginum tekur samkomubann gildi hér á landi. Bannið gildir í fjórar vikur og nær yfir viðburði þar sem 100 manns eða fleiri koma saman.

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, tilkynnti þetta á fréttamannafundi sem nú stendur yfir en samkomubannið gildir yfir íþróttaviðburði.

Það er því ljóst að nú er stefnt á að umspilsleikur Íslands og Rúmeníu verður leikinn fyrir luktum dyrum. Það eru þó miklar líkur á því að leiknum, sem settur er á 26. mars, verði frestað.

Uppselt var á leikinn en Laugardalsvöllur tekur um 10 þúsund áhorfendur.

Fótboltamótum víða um heim hefur verið frestað og mun UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, funda á þriðjudaginn. Talað er um að á þeim fundi verði lokamót Evrópumóts landsliða fært aftur um eitt ár, til 2021. Líklegt er að komandi umspilsleikjum verði frestað.

Fótbolti.net hefur leitað viðbragða frá KSÍ í ljósi stöðunnar. Þar á meðal hvað varðar aðra fótboltaleiki hér á landi. Búið er að fresta leik Vals og Víkings Ó. sem fram átti að fara í kvöld þar sem Víkingar neituðu að mæta í leikinn vegna kórónaveirufaraldursins.
Athugasemdir
banner
banner
banner