Argentínumaðurinn Paulo Dybala hefur verið potturinn og pannan í liði Roma í upphafi tímabils en hann átti frábæran leik á mánudaginn þegar liðið lagði Empoli að velli með tveimur mörkum gegn einu.
Dybala skoraði glæsilegt mark og lagði svo upp sigurmarkið fyrir Tammy Abraham. Hann er kominn með þrjú mörk og tvær stoðsendingar eftir fyrstu 6 umferðirnar en Roma er einu stigi frá toppliðunum.
Þrátt fyrir það hefur liðið lent í töluverðu brasi í leikjum sínum til þessa.
„Í fyrsta viðtalinu mínu þá sagði ég að við verðum að vera rólegir. Hér er mikill vilji til að ná árangri, við erum með besta þjálfara heims og mjög hæfileikaríka leikmenn,” sagði Dybala.
„Við verðum að slaka á og spila á okkar mestu styrkleikjum. Við töpuðum tveimur leikjum í röð og við þurftum að kvitta fyrir það sem og við gerðum. Þetta er það sem frábær lið gera.”
Rómverjar mæta Helsinki í Evrópudeildinni á fimmtudaginn en liðið tapaði fyrsta leik sínum í keppninni gegn Ludogorets. Þremur dögum seinna bíður þerra spennandi viðureign gegn Atalanta í Serie A.