Franska ungstirnið Mathys Tel hefur ekki fengið nógu mikið af tækifærum með aðalliði FC Bayern og hefur verið sterklega orðaður við félagaskipti til Chelsea síðustu daga.
Það virðast þó vera meiri líkur á því að Tel fái loforð um aukinn spiltíma undir stjórn Vincent Kompany frekar en að hann fari til Chelsea.
Tel er 19 ára kantmaður sem hefur aðeins tekið þátt í 12 leikjum með Bayern á tímabilinu og spilað rúmar 350 mínútur í heildina.
Hann ræddi við Kompany í byrjun janúar og sagðist vilja vera áfram hjá Bayern ef hann fengi loforð um að byrja fleiri leiki með liðinu.
Það er útlit fyrir að Bayern muni samþykkja þessa beiðni Tel og gefa honum aukinn spiltíma til að halda honum frá því að færa sig um set.
„Mathys er mjög hæfileikaríkur leikmaður sem mun spila mikilvægt hlutverk hjá okkur. Okkar markmið er að Mathys brjótist fram í sviðsljósið sem leikmaður FC Bayern. Það er skiljanlegt að hann sé ósáttur með að fá lítinn spiltíma og við munum ræða þessi mál ítarlega á næstu dögum," segir Christoph Freund yfirmaður fótboltamála hjá Bayern.
„Við erum mjög ánægðir með hann."
Athugasemdir