Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 15. desember 2022 16:54
Elvar Geir Magnússon
Hefur aldrei dæmt úrslitaleik í Evrópu en fær úrslitaleik HM
Szymon Marciniak á Laugardalsvelli.
Szymon Marciniak á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Pólski dómarinn Szymon Marciniak hefur fengið þann heiður að dæma mikilvægasta leik sem hægt er að dæma sem fótboltadómari, úrslitaleik HM. Þetta hefur FIFA staðfest.

Þetta vekur athygli í ljósi þess að Marciniak hefur enn ekki dæmt úrslitaleik í Meistaradeild Evrópu eða í Evrópudeildinni. Hann hefur hinsvegar dæmt virkilega vel á HM í Katar.

Marciniak er 41 árs gamall og hefur verið að dæma í 20 ár. Hann varð FIFA dómari fyrir ellefu árum síðan.

Marciniak hefur dæmt eftirminnilega leiki hjá Íslandi í gegnum tíðina. Hann dæmdi sigur okkar gegn Austurríki á EM 2016, sigur okkar liðs gegn Tyrklandi í undankeppninni fyrir HM í Rússlandi og svo jafnteflið gegn Argentínu á lokamótinu sjálfu.

Hann dæmir úrslitaleik Argentínu og Frakklands sem verður klukkan 15 á sunnudag en hann verður fyrsti pólski dómarinn í sögunni sem dæmir úrslitaleik HM.

Abdulrahman Al-Jassim frá Katar mun dæma viðureign Króatíu og Marokkó sem leika um bronsið á laugardaginn.

Dómarar úrslitaleiksins, Argentína - Frakkland
Dómari: Szymon Marciniak (Pólland)
Aðstoðardómari 1: Pawel Sokolnicki (Pólland)
Aðstoðardómari 2: Tomasz Listkiewicz (Pólland)
Fjórði dómari: Ismail Elfath (Bandaríkin)
VAR dómari: Tomasz Kwiatkowski (Pólland)
Athugasemdir
banner
banner
banner