Nico Williams skoraði 8 mörk og gaf 19 stoðsendingar í 37 leikjum með Athletic Bilbao á síðustu leiktíð. Hann mætti svo á EM og skoraði þar tvö mörk og gaf eina stoðsendingu í sex leikjum.
Kantmaðurinn efnilegi Nico Williams er gríðarlega eftirsóttur um þessar mundir eftir að hafa átt gott tímabil með Athletic Bilbao á Spáni og gert magnaða hluti með spænska landsliðinu á EM.
Hjá spænska landsliðinu tókst Williams að mynda frábæra tengingu við táninginn Lamine Yamal sem lék á hinum kantinum. Ungstirnin sigruðu Evrópumótið saman og vilja stjórnendur Barcelona ólmir kaupa Williams til að endurskapa kantspil spænska landsliðsins í félagsliðakeppnum.
Barca getur keypt Williams fyrir 55 milljónir evra, en það er ekki víst að leikmaðurinn vilji fara frá Bilbao. Athletic er í það minnsta staðráðið í því að halda stjörnuleikmanni sínum og undirbýr nýtt samningstilboð.
Með nýjum samningi yrði Williams launahæsti leikmaður í sögu félagsins og annar landsliðsmaðurinn til að skrifa undir eftir Unai Simón sem gerði nýjan samning í maí.
Það er ekki einungis Barcelona sem hefur áhuga á Williams heldur eru ensk úrvalsdeildarfélög einnig áhugasöm. Chelsea hefur þar verið nefnt til sögunnar en er þó ekki talið geta keypt leikmanninn án þess að eiga í verulegri hættu á að brjóta fjármálareglur ensku úrvalsdeildarinnar.
Athugasemdir