
„Tilfinningin er geggjuð. Þetta er ótrúlegt, ótrúlegir stuðningsmenn," sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings, eftir sigur gegn KA í úrslitaleik Mjólkurbikarsins í dag. Víkingar hafa verið handhafar bikarsins í meira en 1400 daga og verða það áfram í eitt ár í viðbót hið minnsta.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 1 KA
„Þetta verður eiginlega bara betra og betra. Við tökum þessu alls ekki sem sjálfsögðum hlut. Þú þarft alltaf að vera 'on it' andlega og líkamlega, og taktískt. Þetta er með ólíkindum, ég trúi þessu varla," segir Arnar.
Arnar lofaði því fyrir leikinn að Matthías Vilhjálmsson yrði í óvanalegri stöðu og það var svo sannarlega niðurstaðan. Matthías spilaði í miðverði og gerði það frábærlega.
„Matti Villa í dag, þvílíkt 'colossal' frammistaða hjá honum í miðverði. Þetta eru ótrúlegir strákar og ótrúlegt félag."
„Þetta er svo mikill sigurvegari," sagði Arnar um Matta. „Þetta er ótrúlegur karakter, ótrúlegur fótboltamaður og ótrúleg manneskja. Hann varð strax spenntur þegar ég sagði honum frá þessari hugmynd á mánudeginum. Við fórum vel yfir hans stöðu og hann negldi hana upp á tíu. Svo kemur hann með mark, kremið ofan á kökuna. Þetta er algjör sigurvegari þessi gaur."
Það var ógeðslegt veður á Laugardalsvelli í dag en Arnari var alveg sama um það.
„Þetta er ekta Skagaveður. Ég hef átt margar af mínum bestu minningum í svona veðri," sagði Arnar.
Víkingar geta orðið tvöfaldir meistarar á morgun, þá geta þeir tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn á sófanum. „Ég myndi elska það að vera upp í sófa og sjá Stjörnuna ná stigi af Val."
Hægt er að sjá allt viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan.
Athugasemdir