
„Þetta er rosalegt, þetta er það sem við stefndum að og geggjað að ná að klára þetta," sagði Aron Elís Þrándarson leikmaður Víkings eftir sigur liðsins á KA í úrslitum Mjólkurbikarsins í dag.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 3 - 1 KA
Aron Elís gekk til liðs við Víking í júlí og var staðráðinn í að vinna bikarinn með liðinu.
„Klárt mál. Deildin leit vel út og við vissum það að við værum að fara mæta KA liði sem er allt undir fyrir þá. Aðstæður voru erfiðar en við kláruðum þetta sem var geggjað," sagði Aron Elís.
„Þetta var einvígi og boltinn var útum allt. Við náðum að vera yfir í baráttunni. Þetta var ekki neitt rosalegur leikur af okkar hálfu en það var geggjað að klára þetta."
Aron Elís skoraði annað mark liðsins eftir aukaspyrnu frá Danijel Dejan Djuric en KA menn vildu meina að það hafi ekki átt sér stað brot.
„Ég sé að Danni er að taka aukaspyrnuna og mér finnst þeir vera helvíti aftarlega þannig ég tek hlaupið á nær og flikka honum inn. Ég sé það ekki nógu vel (brotið). Ég veit það ekki," sagði Aron.
Víkingar urðu smá stressaðir þegar Ívar Örn Árnason minnkaði muninn fyrir KA.
„Það var smá stress en mér fannst við vera 'solid'. Geggjað að fá Ara inn og klára þetta," sagði Aron.
Aron Elís vann sinn fyrsta titil með meistaraflokki í dag.
„Fyrsti titillinn í meistaraflokki, það er geggjað og vonandi klárum við Íslandsmeistaratitilinn í næsta leik," sagði Aron.