„Ég er rosalega stoltur af öllu liðinu og öllu batteríinu," sagði Arnór Smárason, fyrirliði ÍA, eftir að liðið tryggði sér sæti í Bestu deildinni í dag.
Lestu um leikinn: ÍA 4 - 1 Grótta
„Það var mikið mótlæti í byrjun sumars en við rifum okkur í gang. Við höfðum alltaf trú á verkefninu."
Tímabilið byrjaði illa hjá ÍA og var liðið lengi í eltingarleik við Aftureldingu, en liðið náði að sigla fram úr í lokin og vinna deildina.
„Það var fyrst og fremst alltaf trú á verkefninu. Þjálfarateymið og allur hópurinn hafði trú á verkefninu út í eitt. Við vissum að sigrarnir myndu koma. Þeir gerðu það og það er frábært að enda þetta svona, saman."
Arnór segir skemmtilegt að koma heim á Akranes og hjálpa liðinu að komast upp.
„Þetta er nánast ólýsanlegt. Þetta gefur manni extra að spila fyrir uppeldisfélagið og upplifa þetta með fjölskylduna í stúkunni. Það var leikur í sumar sem við unnum, Fjölnir úti, og það var einhver ólýsanleg tilfinning sem ég fann eftir leikinn. Þetta skiptir mig miklu máli," segir Arnór en hann býst við að halda áfram að spila á næsta ári. Hann er 35 ára gamall.
„Það er draumur að spila í deild þeirra bestu með Skaganum. Það eru miklar líkur á því."
Athugasemdir