
Tindastóll hélt sér upp í Bestu deild kvenna eftir stórsigur á ÍBV í dag.
Lestu um leikinn: Tindastóll 7 - 2 ÍBV
Halldór Jón Sigurðsson, Donni, þjálfari liðsins var að vonum gríðarlega ánægður. Liðið náði mörgum áföngum í dag eftir þennan 7-2 sigur.
„Frábær leikur. Fyrstu tilfinningarnar eru þær að ég er ótrúlega stoltur af stelpunum. Þær voru stórkostlegar og stuðningsfólkið var stórkostlegt og þetta var ótrúlega skemmtilegur dagur sem verður kórónaður í kvöld á lokahófinu," sagði Donni.
Liðið bætti mörg félagsmet í dag eftir þennan 7-2 sigur.
„Stærsti sigur í sögu félagsins og fyrsta sinn í sögu félagsins sem liðið heldur sér uppi og flest mörk skoruð í sögunni. Ég er ótrúlega stoltur af því hvernig stígandinn hefur verið í leik liðsins, vonandi er þetta eitthvað sem við getum tekið með okkur í næsta tímabil," sagði Donni.