Liverpool reynir aftur við Zubimendi - Isak til Arsenal - Wirtz á óskalista Bayern
   lau 17. apríl 2021 09:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
England á EM - Þessa myndi ég taka með
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Trent Alexander-Arnold í leik á Laugardalsvelli.
Trent Alexander-Arnold í leik á Laugardalsvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Harry Maguire er mjög mikilvægur fyrir enska landsliðið.
Harry Maguire er mjög mikilvægur fyrir enska landsliðið.
Mynd: Mirror
Declan Rice er búinn að eiga frábært tímabil með West Ham.
Declan Rice er búinn að eiga frábært tímabil með West Ham.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Bellingham er aðeins 17 ára gamall en hann hefur sannað sig á stóra sviðinu.
Bellingham er aðeins 17 ára gamall en hann hefur sannað sig á stóra sviðinu.
Mynd: Getty Images
Þrír flottir.
Þrír flottir.
Mynd: Getty Images
Harry Kane er besti leikmaður enska landsliðsins.
Harry Kane er besti leikmaður enska landsliðsins.
Mynd: Getty Images
Því miður mun Ísland ekki taka þátt á Evrópumótinu í sumar. Við rétt misstum af því að komast á þriðja stórmótið í röð, en við skulum ekki vera að hugsa of mikið um það.

Íslendingar sem ætla að fylgjast með Evrópumótinu þurfa að finna sér nýtt lið til að halda með á mótinu. England verður líklega vinsælt þar vegna þess að við Íslendingar elskum enska boltann, alla vega er hann gríðarlega vinsæll.

Það hefur nokkur umræða myndast í tengslum við enska landsliðshópinn fyrir sumar en það eru margir leikmenn sem koma til greina. Það verður erfitt fyrir Gareth Southgate að velja og margir sem verða fúlir þegar tilkynnt verður um valið.

Sparkspekingarnir Gary Neville og Jamie Carragher völdu sína hópa fyrir mótið á dögunum og þá fékk ég þá hugmynd að skoða það sjálfur, hverja ég myndi velja í hópinn.

Ég veit líklega ekki best en þetta er skemmtilegt umræðuefni og gaman að velta þessu fyrir sér. England fer inn í mótið með það hugarfar að vinna það; eins og alltaf en sérstaklega eftir að hafa komist í undanúrslitin á HM síðast. England er í riðli með Króatíu Skotlandi og Tékklandi. Undanúrslitin og úrslitaleikurinn á mótinu fara fram á Wembley í London.

Markverðir:
Nick Pope (Burnley)
Dean Henderson (Man Utd)
Jordan Pickford (Everton)

Það fara þrír markverðir með á mótið og að mínu er það nokkuð augljóst hverjir fara, ef þeir verða allir heilir. Næsti maður inn er Sam Johnstone sem hefur átt gott tímabil með West Brom. Nick Pope væri alltaf aðalmarkvörður hjá mér en Southgate er mikill aðdáandi Pickford.

Varnarmenn:
Trent Alexander-Arnold (Liverpool)
Kyle Walker (Man City)
John Stones (Man City)
Harry Maguire (Man Utd)
Tyrone Mings (Aston Villa)
Luke Shaw (Man Utd)
Bukayo Saka (Arsenal)

Það hefur verið umræða um Trent Alexander-Arnold og hvort hann eigi að fara með. Hann á alltaf að fara með. Það er enginn betri hægri bakvörður en hann sóknarlega, líklega í öllum heiminum. Gegn liðum eins og Skotland og Tékklandi, þar sem England mun stjórna ferðinni, þá væri gott að nota hann og hans fyrirgjafir. Kyle Walker er þá hinn hægri bakvörðurinn sem fer með. Það er líka hægt að nota hann sem hafsent í þriggja manna vörn.

Luke Shaw er búinn að vinna sér aftur sæti í landsliðinu eftir frábært tímabil með Manchester United. Hann á alltaf að byrja og svo er hægt að nota Saka í bakverði, eða vængbakverði, þegar Shaw er hvíldur.

Ég nefni bara þrjá miðverði hérna. Harry Maguire og John Stones munu byrja saman ef England stillir upp í fjögurra manna vörn. Svo er hægt að nota Walker eða Shaw ef farið er í þriggja hafsenta kerfi. Mings er búinn að vera mjög fínn með Aston Villa sem er mjög sterkt varnarlið og á skilið að fara með. Declan Rice getur fallið aftur niður í miðvörð ef nauðsynlegt er.

Næstu menn inn í hópinn er varðar vörnina væru Aaron Wan-Bissaka, Kieran Trippier, Reece James, Ben Chilwell, Ben Godfrey og Michael Keane.

Miðjumenn:
Declan Rice (West Ham)
Jordan Henderson (Liverpool)
Kalvin Phillips (Leeds)
Mason Mount (Chelsea)
Jack Grealish (Aston Villa)
Phil Foden (Man City)
Jude Bellingham (Dortmund)

Ég hugsaði um að setja fjórða miðvörðinn inn og sleppa einhverjum af miðjumönnunum. En það er eiginlega ekki hægt. Declan Rice og Kalvin Phillips geta leyst það að vera djúpir á miðju og er búnir að vera stórkostlegir. Það sama má segja um Grealish, Mount og Foden. Henderson fer að koma til baka úr meiðslum og ef hann er heill, þá er hann eiginlega ómissandi í þessum hóp.

Jude Bellingham er bara 17 ára en hann verður að vera með. Búinn að spila vel með Borussia Dortmund og var besti maður liðsins í tveggja leikja einvígi við Manchester City í átta-liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Það er bara ekkert eðlilegt við það þegar þú ert 17 ára.

James Ward-Prowse gerir kannski tilkall til að komast í hópinn, en hann verðskuldar það ekki meira en hinir sem eru þarna. Southgate virðist ekki vera sérstaklega hrifinn af James Maddison, miðjumanni Leicester, og hann útilokaði sig örugglega með því að fara í partý á dögunum.

Framherjar:
Harry Kane (Tottenham)
Dominic Calvert-Lewin (Everton)
Marcus Rashford (Man Utd)
Jesse Lingard (West Ham)
Jadon Sancho (Dortmund)
Raheem Sterling (Man City)

Harry Kane er besti leikmaður Englands og þeir þurfa að treysta á mörk frá honum á þessu móti. Dominic Calvert-Lewin verður varaskeifa fyrir hann, alls ekki slæm varaskeifa. Marcus Rashford getur einnig spilað sem fremsti maður en er betri út á kanti.

Hvorki Neville né Carragher valdi Jadon Sancho í sinn hóp en það er leikmaður sem á að fara með. Byrjaði hægt en hefur heilt yfir átt fínt tímabil. Hann hefur komið að 28 mörkum í 44 leikjum með landsliði og félagsliði á tímabilinu. Raheem Sterling fer auðvitað með þó hann hafi átt nokkuð erfitt uppdráttar upp á síðkastið. Jesse Lingard verður svo eiginlega að vera í þessum hóp miðað við það hvernig hann hefur spilað upp á síðkastið. Er of stórt að segja að hann hafi verið besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar síðan 1. febrúar?

Næstir inn sem framherjar væru Ollie Watkins, Tammy Abraham, Danny Ings, Harvey Barnes og Mason Greenwood.

Hvernig væri þinn hópur?
Athugasemdir
banner