mán 17. maí 2021 23:50
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Sævar svaraði Aroni með goggnum - „Lét hann aðeins vita"
Sævar fellur
Sævar fellur
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Fylkismenn mótmæla og það sést að Aron og Sævar eru eitthvað byrjaðir
Fylkismenn mótmæla og það sést að Aron og Sævar eru eitthvað byrjaðir
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Vítið tekið
Vítið tekið
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Markinu fagnað
Markinu fagnað
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Sævar Atli Magnússon, fyrirliði Leiknis, skoraði tvö af mörkum liðsins í 3-0 sigri á Fylki í gær. Sævar skoraði fyrsta og þriðja mark leiksins og bæði voru þau að einhverju leyti umdeild.

Talsvert meiri umræða skapaðist í kringum fyrra mark Sævars en ekkert var dæmt þegar Unnar Steinn Ingvarsson fór í grasið eftir viðskipti við Emil Berger. Í kjölfarið átti Dagur Austmann fyrirgjöf á Sævar sem skoraði.

Þriðja markið kom eftir vítaspyrnu og fagnaði Sævar með því að mynda gogg með höndinni eins og hann væri að skjóta á Aron Snæ Friðriksson, markvörð Fylkis, fyrir eitthvað sem hann sagði. Mörkin má sjá hér neðst í fréttinni.

Fréttaritari heyrði í Sævari í dag og spurði hann nánar út í leikinn í gær. Samskiptin við Aron Snæ var fyrsta mál á dagskrá.

„Ég sem sagt er að standa upp eftir að búið var að dæma vítið. Þá stjakar hann við mér og segir að þetta sé aldrei víti, hafi aldrei verið víti og að ég sé dýfari. Hann var örugglega að reyna komast inn í hausinn á mér."

„Svo líður dálítið langur tími, við erum að taka einhverjar skiptingar og Aron vill meina að hann sé að fara verja vítið. Svo skora ég og læt hann aðeins vita af því en svo var allt í góðu eftir leik. Skiljanlegt að hann sé að reyna komast inn í hausinn á mér, ég myndi örugglega líka reyna gera þetta ef ég væri markmaður,“
sagði Sævar.

Þú hefur alveg haldið haus?

„Já, klárlega. Ég er oftast búinn að ákveða horn fyrir fram og því skiptir voðalega litlu máli hvað þessi markmenn eru að segja og ég treysti bara skotinu mínu það vel.“

Atvikið ekki sýnt í sjónvarpinu
Að næsta atviki, þú skoraðir rangstöðumark í leiknum áður (á 38. mínútu) en þú skoraðir fyrsta markið sem taldi. Hvernig var þín upplifun af því atviki?

„Mér fannst það vera helvíti tæpt. Dagur kemur með sendingu sem fer í gegnum klofið á Ragnari Braga og mér fannst ég ekki vera rangur í mómentinu. Ég fer og klára færið og sé svo að hann sé búinn að flagga mig rangstæðan. Ég pældi ekki mikið í þessu, ætlaði að kíkja á þetta í sjónvarpinu en er ekki ennþá búinn að sjá atvikið.“

Atvikið var ekki sýnt í Pepsi Max stúkunni í gær.

Aldrei aukaspyrna í fyrsta markinu
Að fyrsta markinu, hvernig er þín upplifun á því hvort þetta eigi að vera aukaspyrna eða ekki?

„Að mínu mati er þetta aldrei aukaspyrna. Emil er í rauninni á undan og Unnar er klókur, ætlar að reyna fiska aukaspyrnu með því að stíga Emil út, hann nær því ekki og því fannst mér við eiga að hagnast á því og Einar dómari dæmdi þetta þannig. Ég veit svo að varnarlínan er að stíga upp og tek sénsinn á hlaupinu, stel nokkrum metrum og treysti á að einhver sé lengi að stíga upp. Ég held að vinstri bakvörðurinn hafi setið eftir. Mér fannst ég vera réttstæður.“

Mikilvægt að fá sigurtilfinninguna
Hversu mikið gefur fyrsti sigurinn liðinu?

„Þetta gefur okkur ótrúlega mikið, við vorum nálægt því að vinna Breiðablik og að fá þessa tilfinningu að fara inn í klefa, missa vitið í fögnuðinum og fá tilfinninguna daginn eftir. Að fá þetta aftur er mjög mikilvægt. Það má líka líta á þennan leik sem sex stiga leik og því er þetta mjög mikilvægt.“

Hey! Baby öskrað í klefanum
Talandi um fagnaðarlætin, það heyrðist í einu viðtalinu að þið voruð að syngja Hey! Baby. Er það einhver hefð?

„Haha, ég held að þetta sé þriðja árið. Við tökum alltaf eitt gott Leiknisfagn fyrst og svo förum við í þetta lag og öskrum eins og við getum. Þetta er góð hefð og virkilega skemmtilegt,“ sagði Sævar að lokum.



Næsti leikur Leiknis er gegn Val á föstudag. Það má heyra Leiknismenn fagna í viðtalinu við Atla Svein hér að neðan. Viðtalið við Sævar Atla eftir leik má einnig sjá hér að neðan.
Atli Sveinn pirraður: Léleg frammistaða hjá dómara leiksins
Sævar Atli: Mesta víti sem ég hef fengið
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner