mið 17. maí 2023 14:22
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Arsenal gefst ekki upp á því að landa Cloe
Cloe fagnar marki með Benfica.
Cloe fagnar marki með Benfica.
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildarfélagið hefur enn áhuga á því að kaupa Cloe Lacasse frá Benfica.

Record í Portúgal segir frá því að Arsenal sé komið langt í viðræðum við Benfica um kaupa á Cloe fyrir næstu leiktíð. Arsenal hafði mikinn áhuga á því að fá Cloe í janúar en það gekk ekki eftir þá.

Lacasse, sem á þrítugsafmæli í júlí, raðaði inn mörkunum með ÍBV áður en hún skipti yfir til Benfica árið 2019. Hún var einn öflugasti leikmaður Bestu deildarinnar áður en hún fór út.

Á þeim tíma sem hún spilaði hérna þá fékk hún íslenskan ríkisborgararétt en hún gat ekki spilað með íslenska landsliðinu þar sem hún uppfyllti ekki kröfur FIFA til þess að spila með Íslandi. Í fyrra byrjaði hún svo að spila með landsliði Kanada. Óhætt er að segja að það sé svekkjandi að hún spili ekki fyrir Ísland frekar en Kanada.

Cloe var í gær valin leikmaður ársins af öðrum leikmönnum í Portúgal. Hún skoraði 21 mark og gaf 13 stoðsendingar í 21 leik á tímabilinu.

Arsenal er sem stendur í þriðja sæti ensku úrvalsdeildarinnar en liðið komst í undanúrslit Meistaradeildarinnar á þessari leiktíð. Þar tapaði liðið gegn Sveindísi Jane Jónsdóttur og hennar stöllum í Wolfsburg í frábæru einvígi.
Athugasemdir
banner
banner
banner