
Alma Rós Magnúsdóttir, sem er á 15. aldursári, gerði í gær sitt fyrsta mark í efstu deild, og fyrsta mark í meistaraflokki, þegar Keflavík tapaði fyrir FH í Bestu deildinni.
Lestu um leikinn: FH 3 - 1 Keflavík
Alma, sem er mjög svo efnilegur leikmaður, hefur komið við sögu í þremur af fjórum leikjum Keflavíkur í Bestu deildinni til þessa.
Hún byrjaði í gær og skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild eftir um klukkutíma leik.
„Það var gaman að sjá unglingalandsliðskonuna Ölmu Rós skora," sagði Mist Rúnarsdóttir í Heimavellinum þegar rætt var um leik Keflavíkur og FH.
„Þetta var virkilega fallegt mark hjá henni, stöngin og inn," sagði Lilja Dögg Valþórsdóttir.
„Hún er með virkilega góðan fót þessi stelpa, mikla yfirvegun og góðan leikskilning. Ég var með það í kollinum að hún væri orðin eldri en hún er bara á 15. ári," sagði Mist.
Alma er mjög svo efnilegur leikmaður sem er að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokki en hún á að baki fimm leiki fyrir U15 landslið Ísland.
Athugasemdir